141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Við stöndum á tímamótum. Kjörtímabilið er senn á enda og kosningar í nánd. Þó nokkrar mannabreytingar eru fyrirsjáanlegar á Alþingi hver svo sem úrslit kosninganna kunna að verða og ákveðin kynslóðaskipti að eiga sér stað í íslenskum stjórnmálum. Ég hef setið á þingi með hæstv. forsætisráðherra í sex nokkuð stormasöm ár, en ég vil nota þetta tækifæri til að þakka fyrir samstarfið hér á Alþingi nú þegar hennar vakt fer senn að ljúka. Ég geri það af virðingu við einstakling sem hefur helgað líf sitt stjórnmálum og verið ástríðufullur stjórnmálamaður í áratugi. Ég óska hæstv. forsætisráðherra velfarnaðar í hennar framtíðarverkefnum.

Virðulegi forseti. Þetta kjörtímabil hefur óneitanlega verið viðburðaríkt. Ýmis met hafa verið slegin og ansi oft tilefni til að segja: Í fyrsta sinn í þingsögunni gerðist hitt og gerðist þetta. Það voru samt ekki alltaf skemmtileg tilefni og sumum viljum við helst gleyma. Í fyrsta og jafnframt vonandi síðasta sinn í þingsögunni var lögum um landsdóm beitt og pólitísk réttarhöld haldin að undirlagi meiri hluta þingmanna. Sú saga verður þeim sem að henni stóðu til ævarandi skammar.

Frú forseti. Vorið 2013 felur í sér tækifæri til breytinga og það tækifæri verðum við að nýta til fulls og fá nýja vakt til starfa í Stjórnarráðið. Á nýrri vakt á að forgangsraða rétt, bæði verkefnum og fjármunum. Byrjum á brýnu, áríðandi og aðkallandi verkefnunum í þágu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu og látum annað bíða betri tíma.

Heimilisfaðir í Vestmannaeyjum stóð unga hettuklædda pilta að verki um miðja nótt í vikunni þar sem þeir voru að athafna sig með stóra stiga við hús nágrannans, væntanlega ekki með lagfæringar á þakinu í huga. Hann hringdi í Neyðarlínuna eftir lögregluaðstoð en fékk þau svör að ekki væri boðið upp á löggæslu á þessum tíma sólarhringsins í Eyjum. Óprúttnum aðilum er sem sagt gefinn friður til að athafna sig að vild um miðja nótt í Vestmannaeyjum. Heimilisfaðirinn spyr réttilega hvort þetta sé í lagi, hvort hann geti verið viss um öryggi fjölskyldunnar að næturlagi, hvort þetta sé rétt forgangsröðun. Ég segi nei. Þarna er enginn á vakt.

Í haust bárust fréttir af því að lögreglan í Árnessýslu stæði frammi fyrir annars konar forgangsröðun. Vegna fækkunar lögreglumanna á vakt þurfa þeir stundum að keyra fram hjá slysum til þess að sinna öðrum brýnni verkefnum, alvarlegri slysum. Hvað ef það yrðu tvö alvarleg atvik á sama tíma? Á lögreglumaðurinn að þurfa að velja á milli? Ég segi nei, þarna þarf fleiri á vakt.

Við höfum öll skilning á því að fjármunir eru takmarkaðir en þess vegna ber okkur enn meiri skylda til að fara vel með þá. Á þessu kjörtímabili hefur yfir þúsund milljónum verið varið í endurskoðun stjórnarskrárinnar og ekki minna til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Skóflustunga var nýverið tekin að nýju húsi íslenskra fræða sem áætlað er að kosti 3.400 milljónir að byggja og áform eru um að verja 280 milljónum á næsta til grænkunar íslenskra fyrirtækja. Við getum haft ýmsar skoðanir á þessum verkefnum en hvað sem mönnum finnst um þau leyfi ég mér að fullyrða að þau eru ekki brýnustu verkefnin sem við stöndum frammi fyrir. Þau geta ekki verið forgangsverkefnin þegar konur á landsbyggðinni geta ekki fætt í heimabyggð og börnin fæðast við hættulegar aðstæður í snjóbyl uppi á heiði. Eða þegar aldraðir geta ekki búið heima hjá sér vegna skertrar heimaþjónustu og eru fluttir hreppaflutningum eins og eldri borgari í Þorlákshöfn fékk að reyna nýverið.

Fyrir fjórum árum stóð ég hér við þetta sama tækifæri í eldhúsdagsumræðum og benti á að við hefðum tvo valkosti; að læra að lifa með vandanum eða leysa hann. Að gera við þakið eða setja fötu undir lekann. Nú skulum við gera þetta rétt. Drífum okkur upp á þak og gerum við það. Atvinnuleysistölur hafa sannarlega lækkað en vandinn hefur ekki verið leystur. Hann er orðinn útflutningsvara. Mér svíður að sjá á eftir vinum mínum sem hyggjast flytja til Noregs í sumar eftir að skóla barnanna lýkur, en það er eina leiðin svo að fjölskyldan geti verið saman þar sem fjölskyldufaðirinn hefur þar trygga vinnu. Ég vil að hann fái trygga vinnu hér. Blandaða leiðin á ekki að vera niðurskurður og skattahækkanir heldur rétt forgangsröðun og aukin verðmætasköpun.

Virðulegur forseti. Ég eignaðist dreng 25. september 2008, korteri fyrir fall bankanna. Í orrahríðinni miðri, í byrjun október þegar ég sat með nýfæddan drenginn í fanginu og fylgdist með fréttum hafði ég miklar áhyggjur af framtíð hans, hvort hann hefði aldrei möguleika á sömu tækifærum og við foreldrar hans og systkini. Ég var miður mín og ræddi þetta við föður minn sem sló á áhyggjur mínar og sagði: Elskan mín, hafðu engar áhyggjur, ég er fæddur 1931 í miðri kreppunni miklu, þrátt fyrir það hef ég lifað hamingjusömu lífi og notið velgengni. Hafðu engar áhyggjur af stráksa, það birtir til.

Höfum þetta í huga þegar við hugsum til vorsins, það birtir alltaf til. Við getum verið stolt af æskunni okkar, borið væntingar til tækifæra framtíðarinnar, jarðvegurinn er góður og hér er allt til alls.