141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Við eigum það öll sameiginlegt að vilja taka ábyrgð á eigin lífi, vera til staðar fyrir aðra og hafa áhrif á samfélagið sem við búum í. Kjarni jafnaðarhugsjónarinnar er samfélag jöfnuðar. Jöfnuður veitir öryggi, eykur almenna vellíðan, bætir heilsufar og er hagvaxtarhvetjandi. Jöfnuður er ekki aðeins efnahagslegt hugtak þar sem þeir sem meira hafa greiða hlutfallslega hærri skatta til að auka ráðstöfunartekjur þeirra sem minna hafa, heldur felur jöfnuður í sér menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi sem þjónustar alla eftir þörfum og veitir fólki tækifæri til að þroska hæfileika sína. Róttækra breytinga er þörf í húsnæðismálum. Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi hefur verið einhæfur og leiðin til húsnæðisöryggis hefur verið að kaupa fasteign hvað sem það kostar.

Sú stefna hefur leitt okkur í ógöngur og hefur ekki tryggt húsnæðisöryggi. Húsnæðisöryggi er rétturinn til að eiga heimili án sligandi byrða eða óvissu, hvort sem fólk kýs að leigja eða kaupa. Samfylkingin hefur á þessu kjörtímabili leitt þverpólitíska vinnu um breyttar áherslur í húsnæðismálum þar sem lögð er áhersla á fjölbreyttari búsetuform og eflingu leigumarkaðarins þannig að ungt fólk, fólk með lægri tekjur og þeir sem velja meiri sveigjanleika í búsetu geti notið húsnæðisöryggis á leigumarkaði.

Til þess þarf nýtt húsnæðisbótakerfi þar sem fólki er ekki refsað fyrir að leigja, stuðning sveitarfélaga og ríkisins við leigufélög og húsnæðisáætlanir svo húsnæði verði byggt í samræmi við þarfir og á þeim svæðum þar sem eftirspurnin er mest.

Á næstu missirum þarf að endurskoða hlutverk Íbúðalánasjóðs, draga úr ríkisábyrgðum og tryggja örugga fjármögnun húsnæðislána. Núverandi húsnæðislánakerfi gengur augljóslega ekki upp og vinna þarf að víðtækri samstöðu um breytingar. Slík samstaða fæst ekki með óraunhæfum loforðum sem er ekki hægt að standa við, enda hætt við að slík gylliboð skapi stærri vanda en þann sem á að leysa.

Nú eru tæp fimm ár liðin frá því að fjármálakerfið og peningakerfið hrundu. Hvaða kerfi voru það sem hrundu ekki? Jú, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og velferðarkerfið. Stóru kvennastéttirnar á íslenskum vinnumarkaði sáu til þess að íslenskt samfélag virkaði ágætlega þrátt fyrir allt, menntuðu börn og unga, hlúðu að sjúkum og öldruðum, mættu fólki í vanda með ráðgjöf og lausnum og efldu okkur trú á framtíðina. Það hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig. Þau kerfi fóru ekki varhluta af niðurskurði og starfsfólkið lagði á sig meiri vinnu og veitti frábæra þjónustu þótt rekstrarfjármunir væru naumt skammtaðir.

Það er því eðlilegt að kvennastéttirnar undrist að enn sé til staðar kynbundinn launamunur eða eins og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur bent á, ráðuneytisbundinn launamunur. Ríkisstjórnin hefur unnið tímasetta aðgerðaáætlun til að vinna á kynbundnum launamun og hefur fengið aðila vinnumarkaðarins í lið með sér. Mesti launamunur hjá ríkinu sýndi sig vera innan heilbrigðiskerfisins og var ákveðið að setja stóru kvennastéttirnar þar í forgang. Fyrstu aðgerðirnar til leiðréttingar á launamuninum hafa þegar litið dagsins ljós á Landspítalanum.

Landspítalinn er þjóðarsjúkrahús. Við gerum okkur öll grein fyrir hversu mikilvæg starfsemi hans er og hvaða þýðingu hann hefur fyrir gæði alls heilbrigðiskerfisins og öryggi okkar sem byggjum þetta land. Samfylkingin leggur því áherslu á að hefja byggingu nýs spítala eins fljótt og kostur er. Nýtt sjúkrahús mun bæta aðbúnað og öryggi sjúklinga, verða eftirsóknarverður vinnustaður og skapa rekstrarhagræði. Þjóðin er að eldast og meira mun reyna á heilbrigðiskerfið á næstu árum og áratugum, en við erum líka heilbrigðari og eldri borgarar landsins eru virkir þátttakendur í samfélaginu.

Samfylkingin hefur verið í fararbroddi fyrir endurskoðun almannatryggingakerfisins til að tryggja að eldri borgarar búi við góð kjör á meðan lífeyrissjóðirnir eru að ná fullum þroska. Við höfum lagt áherslu á að kerfið sé sameign okkar allra og að sem flestir njóti almannatrygginga eftir áratugaframlag til samfélagsins.

Nú liggur fyrir frumvarp í þeim anda í þinginu sem felur í sér einföldun á kerfinu og kjarabætur. Samfylkingin vill að samstaða skapist um það í þessum sal að fyrsta verk nýs þings eftir kosningar verði að lögfesta frumvarpið.

Það kjörtímabil sem er senn á enda hefur einkennst af aðgerðum til að reisa íslenskan efnahag við eftir hrunið 2008 en við höfum aldrei misst sjónar á markmiðinu um öruggt og gott samfélag.

Góðir landsmenn. Við erum á réttri leið.