141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:59]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Góðir Íslendingar. Nítjándu aldar stjórnmálamanni í París varð eitt sinn litið út um glugga sinn þar sem fram hjá fór múgur og margmenni og varð að orði: Þarna fer þjóðin mín, best að ég komist að því hvert hún er að fara svo að ég geti leitt hana. Þessi saga hefur verið notuð sem dæmisaga um vonda stjórnun. Það sé hlutverk stjórnmálamanna að stjórna, leiðtoga að leiða en auðvitað eiga stjórnmálamenn að vera í góðum tengslum við þjóð sína, hlusta á hana. Það er hægt að gera án þess að hlaupa alltaf fremst í hóp þeirra sem fara reiðir um. Stjórnmálamenn eiga að fylgja sannfæringu sinni og byggja hana á samtali við þjóðina. Þjóðin er ekki ánægð með Alþingi. Í haust þegar prófkjör flokkanna voru á næsta leiti komst ég að þeirri niðurstöðu að áframhaldandi starf fyrir gamla flokkinn minn mundi fela í sér þátttöku í óbreyttu ástandi.

Eftir fjögur ár, eftir efnahagshrun, eftir rannsóknarskýrslu, eftir innri endurskoðun blasir það við að stjórnmálaflokkunum er ómögulegt að breyta sér innan frá og þeim er ómögulegt að vinna betur saman. Það er í eðli þeirra að berjast. Það er í eðli þeirra að freista þess að láta sitt ljós skína skærar með því að slökkva ljós annarra. Sem betur fer höfum við séð að til er leið til að breyta gömlu flokkunum og sú leið er í höndum kjósenda. Það tókst að breyta stjórnmálunum í Reykjavík. Það eina sem verður til þess að gömlu flokkarnir hugsi sinn gang er skortur á atkvæðum. Fái þeir atkvæði, óbreytt ástand. Fái þeir þau ekki, breytt ástand. 100 ára gamalt flokkakerfið, með kostum sínum og göllum, er í þínum höndum. Tækifærið er í næsta mánuði.

Við í Bjartri framtíð höfum nýverið kynnt stefnu okkar í brýnum úrlausnarefnum inni á björtframtíð.is en það sem ég vil segja umfram allt er þetta: Við reynum að sýna í störfum okkar að það er hægt að tala fyrir stefnu, vinna í átt til sáttar, gera gagn en vera um leið kurteis og bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Við leggjum áherslu á að svara aldrei með skætingi, við túlkum ekki skoðanir annarra eða gerum þeim upp annarlega hagsmuni. Við tölum um okkar stefnu. Við setjum í fyrsta sæti að verða að gagni og það gagnast ekki að tala niður til þeirra sem eru manni ósammála. Það gagnast ekki að vera með skítkast. Virðing er gagnleg og það er út af þessari nálgun sem ég gengst stoltur við því að hafa skipt um flokk.

Það var vitnað í Churchill í Borginni á RÚV á sunnudaginn en hún fjallar einmitt um nýsköpun í stjórnmálum. Sumir skipta um flokka vegna sannfæringar sinnar, aðrir skipta um sannfæringu vegna flokksins síns. Þeir sem kjósa gömlu flokkana sína í komandi kosningum kjósa óbreytt ástand hér á þingi. Minn flokkur, Björt framtíð, er skýr valkostur sem mun breyta þessu. Við erum líka grænn flokkur. Við munum ekki gera við jökulárnar fyrir norðan, Hagavatn, Þjórsá, Hólmsá og Skaftá það sem gert hefur verið við Lagarfljót. Aldrei aftur slíka framkvæmd. Aldrei aftur að hunsa niðurstöður vísindamanna, að horfa fram hjá viðvörunum. Náttúran okkar er það dýrmætasta sem við eigum, fjöregg okkar og stolt. Lykillinn að lífshamingju ókominna kynslóða Íslendinga og nú hljómar hún í dag fallegust setninga íslenskrar tungu: Lóan er komin. Hún segir okkur að það sé bjart fram undan. Björt framtíð.