141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

hagtölur og hagstjórn.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti Hagstofan er nýbúin að birta tölur fyrir síðasta ár og dregur þar upp mjög dökka mynd af stöðunni í hagkerfinu, hér hafi á síðasta ári einungis verið 1,6% hagvöxtur. Á sama tíma sýnir Hagstofan tölur sem benda til þess að ríkissjóður hafi ekki verið rekinn með 20 milljarða halla eins og að var stefnt á síðasta ári heldur 60 milljarða halla, þrefalt meiri halla en að var stefnt.

Mig langar til að biðja hæstv. forsætisráðherra að koma hér upp og bregðast við þessum tölum Hagstofunnar og gera grein fyrir því hvað það var í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem ekki gekk eftir. Hvað var það sem brást? Átti ríkisstjórnin von á meiri erlendri fjárfestingu? Átti hún von á því að atvinnulífið gæti fjárfest meira en raun varð þrátt fyrir endalausar skattahækkanir? Átti ríkisstjórnin von á aukinni einkaneyslu heimilanna í landinu? Hvað var það sem brást? Gengið hefur verið út frá því að hér gæti verið um það bil 3% hagvöxtur árin 2011 og árið 2012. Það er eitthvað stórkostlegt sem hefur brugðist.

Við höfum sagt allt þetta kjörtímabil að of langt hafi verið gengið á braut skattahækkana og með því að setja ný gjöld á bæði heimili og fyrirtæki. Við höfum líka talað gegn því að heilu atvinnugreinunum væri haldið í mikilli pólitískri óvissu eins og átt hefur við um sjávarútveginn og varðandi orkunýtingu í landinu. Meira að segja ferðaþjónustan fékk að finna fyrir þessari stefnu ríkisstjórnarinnar á síðasta ári. Er það ekki staðreynd, hæstv. forsætisráðherra, að stefna ríkisstjórnarinnar hefur algerlega brugðist og neikvæð áhrif þess að seilast sífellt dýpra í vasa fyrirtækjanna og heimilanna birtast okkur í þessum tölum?