141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

hagtölur og hagstjórn.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst stundum þegar stjórnarandstaðan ræðir um hagvöxt, og nú þegar hann hefur verið heldur minni en menn bjuggust við, að hún haldi að það sé fljúgandi hagvöxtur alls staðar í löndunum í kringum okkur. Það er bara ekki þannig. Það er meiri hagvöxtur hér en í mörgum þeim löndum sem við berum okkur saman við í Evrópu og það er samdráttur líka á ýmsum stöðum eins og Danmörku, Bretlandi, Finnlandi og víðar.

Vissulega er hagvöxturinn minni en við bjuggumst við en engu að síður hefur hann aukist tvö ár í röð og það er nokkuð, hv. þingmaður. Árið 2011 voru OECD-ríki með um 1,8% hagvöxt samanborið við að hér var hann 2,9%. Á síðustu árum, mánuðum og missirum hefur hann því verið miklu meiri hér heldur en annars staðar. Samkvæmt spám Seðlabankans mun koma kippur í hagvöxtinn og það stefnir í 3,5% hagvöxt 2014 og 3,9% hagvöxt 2015 og við skulum vona að það gangi eftir.

Það er ljóst að fjárfestingar hafa ekki gengið eftir eins og við höfðum vonast til en atvinnuvegafjárfesting hefur þó aukist tvö ár í röð. Hún mætti sannarlega vera meiri, en að raungildi er fjárfesting á síðasta ári t.d. svipuð og hún var 1997 þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn stjórnuðu. Ég er alveg sannfærð um að ef þær fjárfestingar ganga eftir sem eru í pípunum, en við höfum gert ýmsa fjárfestingarsamninga á grundvelli ívilnunarákvæða sem fyrir eru, munu fjárfestingar aukast verulega á næstu árum og hagvöxtur líka. Gangi þær fjárfestingar eftir sem ívilnunarsamningar hafa verið reistir á erum við að tala um fjárfestingar upp á 290 milljarða kr. og 2.200 ársverk. (Forseti hringir.) Síðan eru það líka þær fjárfestingar sem reistar eru á fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar þannig að þetta er ekki allt jafnkolsvart og stjórnarandstaðan vill vera láta hér í ræðustól.