141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

hagtölur og hagstjórn.

[10:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er auðvelt að taka undir með forsætisráðherra þegar hún segir að ef fjárfestingar taki við sér verði ástandið betra. En við erum að ræða um það núna að þær hafa ekki tekið við sér og atvinnuvegafjárfesting er 14% þegar hún ætti að vera 20%. Hagvöxtur á Íslandi er lítill og hann er miklu minni en hann ætti að vera, ekki í samanburði við OECD-ríkin eða einhver önnur Evrópusambandsríki, heldur í samanburði við það sem gerist hjá löndum sem hafa lent í eins miklum öldudal og við lentum í.

Það var eitt það fyrsta sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði haustið 2008: Þið munuð fara niður í hagvexti, það verður mikill samdráttur í hagkerfinu En í kjölfarið kemur kraftmikið hagvaxtarskeið ef þið grípið til réttra ráðstafana. Það kraftmikla hagvaxtarskeið hefur látið á sér standa. Það er mergurinn málsins. Þess vegna tölum við um þetta kjörtímabil sem ár hinna töpuðu, glötuðu tækifæra. Þess vegna er hagvöxturinn ekki hér, vegna þess að valin var röng leið. Ég spyr mig bara að því: Hver væri staðan ef ekki hefði synt inn í íslenska fiskveiðilögsögu (Forseti hringir.) 30 milljarða verðmæti af makríl, ef ekki hefði komið til aukinn fjöldi ferðamanna til landsins og skilyrði í hafinu og á mörkuðum fyrir aukinn útflutning á þorskafurðum (Forseti hringir.) hefðu ekki verið eins góð og þau hafa verið? Þá værum við aldeilis fyrst í klemmu.