141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

hagtölur og hagstjórn.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson lætur eins og við séum ekkert háð alþjóðaumhverfinu, að sú kreppa sem hefur verið í Evrópu hafi engin áhrif haft á fjárfestingar- og atvinnuuppbyggingu og þar með hagvöxt. Vissulega hefur það áhrif og hv. þingmaður á að viðurkenna að miðað við alþjóðlega umhverfið og stöðuna hér er hagvöxtur sæmilegur þótt við vildum auðvitað sjá hann meiri. Það er áhyggjuefni að hann hafi lækkað en eins og ég sagði hefur hann verið að aukast tvö ár í röð og við eigum von á því að sjá hagvöxt með þeim fjárfestingarsamningum sem við höfum verið að gera og þeirri fjárfestingaráætlun sem ríkið hefur gert þar sem við sjáum atvinnuuppbyggingu á næstu árum um allt land. Það hlýtur að vera jákvætt.

Ég trúi ekki að hv. þingmaður sé, eins og mér heyrist, að gera lítið úr því átaki sem þessi ríkisstjórn hefur gert í ríkisfjármálum. Hver var hallinn þegar við tókum við? Hv. þingmaður hlýtur að muna að hann var á þriðja hundrað milljarða kr. (Gripið fram í.) Við höfum náð honum verulega niður (Forseti hringir.) og munum sjá hann í jafnvægi á næsta ári. Þetta er allt árangur sem við höfum náð. Það sem vantar upp á er að hv. þingmaður horfist í augu við staðreyndir.