141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruminjasýning í Perlunni.

[10:48]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ríkisfjármál fjalla um forgangsröðun og sjaldan hefur verið brýnna en nú á þessum tímum að umgangast þau með gætni og varúð. Í fréttum kom fram að skrifað var undir samninga um stofnun og uppsetningu náttúruminjasýningar í Perlunni. Þar á að eyða 500 millj. kr. í stofnkostnað, uppsetningu sýningar. Það sem vakti undrun mína var að við undirritun þessara samninga voru viðstaddir tveir hæstv. ráðherrar, hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra.

Af því tilefni vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvaðan henni koma heimildir til að undirrita skuldbindandi samning um rekstrarkostnað við þessa sýningu. Það eru engar heimildir fyrir því í fjárlögum til að reka þá sýningu sem þarna á að setja upp. Í umboði hvers undirritar hæstv. ráðherra þessa samninga? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera að hausti þegar Alþingi Íslendinga stendur frammi fyrir því við fjárlagagerð fyrir árið 2014 að grípa til fjárveitinga vegna t.d. neyðarástands í heilbrigðisþjónustu landsins? Umgangast menn virkilega fjármálin þannig að skrifað er upp á 200 millj. kr. árlegan rekstrarkostnað án þess að fyrir liggi nauðsynlegar og lögbundnar heimildir fyrir viðkomandi ráðherra sem er í ábyrgð fyrir ríkisfjármálin? Er það eðlilegt að mati hæstv. ráðherra sem ber höfuðábyrgð á fjármálum ríkisins að undirrita þetta án þeirrar heimildar sem tilskilin er í lögum?