141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruminjasýning í Perlunni.

[10:52]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hér liggur fyrir að hæstv. fjármálaráðherra gerir ráð fyrir því að sýningin verði rekin með hagnaði. Annað segir minnisblað sem fjárlaganefnd hefur fengið þar sem gert er ráð fyrir því að 200 millj. kr. árlegur rekstrarkostnaður verði af því uppátæki sem hér liggur fyrir. Þá vil ég spyrja um forgangsröðun.

Hér hefur komið fram að það vanti tilfinnanlega þessa sýningu. Það vantar líka tilfinnanlega fé í heilbrigðisþjónustu landsins. Ég var á fundi með forsvarsmönnum Sjúkrahússins á Akureyri ásamt þingmönnum Norðausturkjördæmis um daginn. Þar vantar tilfinnanlega 200 millj. kr. á ári til að komast upp að sársaukamörkum eftir 10% niðurskurð stöðugilda. Þetta er forgangsröðunin. Menn vilja setja 200 millj. kr. á ári, brúttókostnað, í rekstur samkvæmt frumathugun og ekki lækka tölurnar í endanlegri útgáfu af kostnaðaráætlun, en þetta er forgangsröðunin. Hæstv. fjármálaráðherra kýs fremur (Forseti hringir.) að leggja 200 millj. kr. í rekstur á sýningu í Perlunni í stað þess að leggja 200 millj. kr. á ári í heilbrigðisþjónustu landsmanna og gera skuldbindandi samning þar um.