141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

kennaranám.

[11:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Það er mikilvægt að vita að samtal á sér stað á milli þessara aðila, sem eru ráðuneytið, skólarnir, Kennarasambandið og ekki síst sveitarfélögin. Ég vil líka sérstaklega fagna síðustu orðum ráðherrans sem tengjast uppbyggingu námsins og ég er ánægð að heyra að við erum sammála um að umgjörðin eigi að vera áfram og við eigum að gera þessar kröfur. Við verðum engu að síður að huga að því, til þess að laða að fleira fólk — og auðvitað spila aðrir þættir inn í það að fólk sækir ekki í jafnríkum mæli í kennaranám og áður, sérstaklega í leikskólakennaranámið, og það eru meðal annars launakjörin en það er önnur umræða.

Ég tel mikilvægt að í þessu samtali reynum við að stuðla að auknum sveigjanleika í náminu og þar spila sveitarfélögin líka stórt hlutverk. Ég tel til að mynda mikilvægt að hugað verði að því, án þess að slaka á kröfum til kennara, að menn fái hugsanlega starfsleyfi eftir þrjú ár og haldi síðan áfram í meistaranámið og (Forseti hringir.) klári þá fimm ára námið eins og stefnt hefur verið að. Mikilvægt er að við sendum út þau skýru skilaboð að við ætlum ekki að slaka á kröfum hvað varðar kennaranámið, við ætlum að efla það að gæðum og innihaldi og við ætlum að stuðla að fjölbreytni. Það verði meðal annars gert í gegnum aukið starfsnám og aukna samvinnu (Forseti hringir.) á milli allra sem að málum koma.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörkin.)