141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

skattamál.

[11:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég er nú ekki með þessar tölur á takteinum og varðandi umrædda skýrslu þykir mér leitt að hún hafi borist seint en ég fékk þær upplýsingar, þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir spurði eftir henni hér undir liðnum um fundarstjórn forseta, að hún væri á leiðinni, það væri verið að prófarkalesa og snurfusa og hún væri að koma hér inn og ég geri ráð fyrir að svo verði nú fyrir helgi. Þá held ég að það væri ágætislag að taka samtal um hana þegar hún er komin.

En varðandi virðisaukaskattinn þá vitum við alveg, þó að ég sé kannski ekki tilbúin að nefna einhverjar tölur hér og nú, að við verðum af tekjum í því kerfi. Við horfðum sérstaklega til þess við fjárlagagerðina, þegar við ákváðum að auka aftur fjármuni til ríkisskattstjóra, að bæta í á sviði virðisaukaskattsins, þ.e. eftirliti þar, og fjölga starfsmönnum sem sinna virðisaukaskattinum vegna þess að þeir eru allt of fáir. Ég tel að við getum gert mun betur og vilji minn stendur til þess að gera það og þá þarf líka að horfa á ákveðin svið í efnahagslífi okkar.

Mikið hefur verið rætt um ferðaþjónustuna og við þurfum að fara mjög vandlega í gegnum það. Menn mega heldur ekki ganga um og ásaka ákveðnar greinar um að vera í stórum stíl að svíkja undan skatti, það viljum við ekki heldur gera. Við þurfum að hafa rannsóknir og gögn að baki og vinna vel úr þeim þannig að tekjurnar skili sér eins og þær eiga að gera inn í ríkissjóð. Það er það vinnulag sem ég vil hafa á þessu, þ.e. að við sleppum upphrópunum en rannsökum málin vel og grípum svo til aðgerða þegar málin liggja fyrir, þ.e. þegar myndin af stöðunni liggur fyrir eins og hún raunverulega er. En eitt af því fyrsta sem við þurfum að gera er að bæta verulega í starfsmannafjölda og þá sem starfa að innheimtu og eftirliti með virðisaukaskattinum.