141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[11:13]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég veit nú ekki hvað gamli stærðfræðikennarinn minn mundi segja um tvöfaldan óendanleika [Hlátur í þingsal.] en þannig er að þetta er alveg gríðarlega umfangsmikið mál, hátt í 100 lagagreinar og gríðarlega mikið efni sem hefur komið hér til þingsins í formi umsagna. Margar athugasemdir hafa komið til okkar um efni einstakra lagagreina og það er ekkert óeðlilegt við það að við köllum eftir því að rúmur tími sé til að ræða þetta mál. Þetta mál hefði auðvitað þurft að vera miklu fyrr á ferðinni.

Virðulegi forseti. Það er ekkert langt síðan við stóðum hér í þessum sal og vorum að leiðrétta villur í lagasetningu og það er mjög mikilvægt að við förum vel í gegnum þetta mál, ræðum það, gefum okkur þann tíma sem þarf til að tryggja að ekki verði gerðar villur í lagasetningu um jafnmikilvægt mál og náttúruvernd á Íslandi.