141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[12:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Það er rétt sem kom fram í máli þingmannsins að 18.–32. gr. í raun hafa mest verið í umræðunni og ég fagna því náttúrlega að svona margir Íslendingar skuli hafa látið sig málið varða. Ég tek undir með þingmanninum, það er afar mikilvægt. Einmitt vegna þessa eru gerðar ítarlegar breytingar til að styrkja almannaréttinn og eins og ég rakti í máli mínu vísa ég sérstaklega til 18. gr. sem er grundvallargreinin í sambandi við almannarétt. Akandi umferð er færð inn í þá grein sem við skulum átta okkur á, hv. þingmenn, að er grundvallarbreyting í íslenskum rétti. Hún er einmitt gerð til að mæta þessum athugasemdum og áhyggjum útivistarmanna.

Eins og gefur að skilja eru mótmæli við lagafrumvarpið, en ég er nokkuð viss um, (Forseti hringir.) frú forseti, að margir þessara aðila og líklega flestir væru ánægðir með þær breytingar sem þingnefndin gerði.