141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[12:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef farið á nokkra fundi þar sem mótmælum hefur verið komið á framfæri um þetta frumvarp. Það er mikil óánægja hjá útivistarfólki með það og duga ekki til þær lagabætur sem hér eru lagðar fram af meiri hlutanum og hv. þingmaður fór yfir í ræðu sinni. Það er enn megn óánægja með frumvarpið því að þarna skarast einfaldlega hagsmunir og lífsskoðanir. Í venjulegu ríki ætti útivist og umhverfisvernd að fara saman en þetta frumvarp er byggt á stefnuskrá Vinstri grænna þar sem umhverfisvernd er litin því auga að umhverfið og náttúran eigi einungis að vera fyrir örfáa útvalda og þá helst umhverfisverndarsinna sem ég geri ekki lítið úr en það verður að skapa sátt milli landsmanna allra og sérstaklega þeirra sem eiga að nota og njóta þeirra náttúrugæða (Forseti hringir.) sem felast í því að ferðast um landið.

Þess vegna spyr ég á ný: Óttast þingmaðurinn ekki (Forseti hringir.) að þessi mikla mótmælaalda eigi eftir að hafa afleiðingar verði þetta frumvarp keyrt svona í gegnum þingið?