141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[12:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég óttast það ekki. Ég óttast það ekkert frekar en þegar grundvallargreinarnar sem eru í náttúruverndarlögum nú sem voru settar árið 1999 voru teknar inn og stærsti hluti þeirra mótmæla, sem nú koma fram, var við. Ég hef ekki orðið var við það frá 1999 að það hafi orðið einhver meiri háttar fjöldamótmæli úti í samfélaginu, að menn hafi riðið um héruð og haft uppi slíkar áhyggjur.

Það er skiljanlegt að fyrir hendi séu áhyggjur af almannaréttinum í breytingartillögum meiri hlutans, en við verðum að átta okkur á því að við erum að tala um náttúruverndarlög. Það er ekkert óeðlilegt að í þeim séu einhverjar takmarkanir, en ég ítreka það sem ég sagði áðan, nefndin hefur engu að síður bætt mikið í sambandi við almannaréttinn og skýrt mjög ríkulega til að mynda ákvæði um það hvernig menn geta ferðast um landið (Forseti hringir.) án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að brjóta lög.