141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[12:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég tel mjög mikilvægt að taka tillit til þeirra athugasemda sem hér um ræðir. Samráðið hefði að mínu mati mátt vera mun betra.

Síðan bendi ég líka á það sem kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem er hinn stjórnsýsluaðilinn, sem sér um framkvæmd laganna. Það þekkir hv. þingmaður jafn vel og ég. Það kemur fram í athugasemd sambandsins að það telji samt sem áður mikilvægt að málið hljóti vandlega umfjöllun í meðförum Alþingis enda sé það eitt af stærstu málum sem þingið hefur til umfjöllunar.

Síðan gerir það þá athugasemd að það séu ekki raunhæf og eðlileg vinnubrögð að málið verði klárað á þeim tíma sem hér um ræðir, þ.e. frá því að málið er lagt fram, þótt meðhöndlun nefndarinnar hafi eflaust verið góð. Það er hvatning til þess að staldra við og vanda sig mun betur. Það er klárlega það sem kemur frá hinu stjórnsýslustiginu sem sér um framkvæmd laga.