141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og yfirferð hans á nefndaráliti sem snýr að þessu máli. Það kom reyndar fram í andsvörum við hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson, formann nefndarinnar, að alvarlegar athugasemdir hefðu verið gerðar vegna samráðsleysis við framlagningu og samningu frumvarpsins. Þess er getið í umsögn frá Landssambandi veiðifélaga og í svari hv. þingmanns kom fram að þau sjónarmið hefðu komið fram frá mörgum öðrum gestum. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki skynsamlegra að menn vinni þetta öðruvísi en hér er gert.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

„Sambandið leggur áherslu á að hér er ekki um að ræða þingmál sem getur sætt flýtiafgreiðslu á þeim stutta tíma sem er til þingloka enda felur frumvarpið í sér róttækar breytingar á gildandi löggjöf um náttúruvernd“.

Ég lít það alvarlegum augum þegar slík umsögn kemur frá hinu stjórnsýslustiginu, því sem sér um framkvæmd laganna. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort gestirnir sem komu fyrir nefndina hafi ekki haft ýmsar efasemdir um það hversu skynsamlegt væri að keyra frumvarpið í gegn á þeim stutta tíma sem það hefði verið í meðförum þingsins. Getur hv. þingmaður útskýrt fyrir mér hvernig því var háttað á fundi nefndarinnar?