141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að biðjast afsökunar á því að hafa ekki titlað herra forseta á réttan hátt, ég tek þær athugasemdir til greina.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um samráðsleysi þá kom ég inn á það í upphafi máls míns að vissulega væru ávallt skiptar skoðanir þegar mál væru lögð fram. Umsagnaraðila greinir á um hvort það frumvarp sem í hlut á hverju sinni geti orðið að lögum eða ekki, eðli málsins samkvæmt. Þegar um er að ræða frumvarp eins og þetta eru skoðanir mjög skiptar hvað marga þætti snertir. Mér fannst það hins vegar sláandi við vinnslu málsins í nefndinni hversu margir aðilar komu með athugasemdir um að þeir teldu ekki skynsamlegt að klára málið.

Ég tel skynsamlegt að taka tillit til þeirra athugasemda sem fram eru komnar. Ég rakti margar þeirra hér áðan sem ég tel fulla ástæðu til að taka tillit til óháð afstöðunni til stóru þáttanna í frumvarpinu. Þarna eru atriði sem einfaldlega þarf að laga og breyta.

Ég fór mjög vel ofan í þetta mál, kallaði eftir miklum fjölda gesta og formaður nefndarinnar varð við þeim beiðnum mínum. Ég held að það sé alveg ljóst, eftir að hafa farið yfir þessa umræðu, heyrt í öllum þessum fjölda gesta, allar þessar umsagnir, að skynsamlegt sé að vinna þetta mál betur og leggja það fram aftur þegar tillit hefur verið tekið til sjálfsagðra athugasemda en vera ekki að afgreiða málið á síðustu dögum þingsins og skilja mörg óvissuatriði eftir óleyst.

Ég náði ekki í ræðu minni að koma inn á athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ég hafði hugsað mér að gera það og átti þann hluta eftir í nefndaráliti mínu.