141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:45]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er skammur tími til andsvara, það er svo ótal margt sem kom fram í máli hv. þingmanns, en mig langar að staldra við nokkur atriði, fyrst þetta sem stendur upp úr mönnum um hið meinta samráðsleysi. Í þessum málflutningi finnst mér þingmaðurinn og fleiri teygja sig býsna langt því að þó að frumvarpið sé seint komið inn í þingið liggur að baki því ansi mikil undirbúnings- og samráðsvinna.

Frumvarpið byggir á hvítbókinni svokölluðu, um löggjöf til verndar náttúru Íslands, sem kom út árið 2011. Meðal annars á umhverfisþingi það ár var hún rædd í þaula. Hún byggði á vinnu fjölda sérfræðinga um náttúru landsins og fulltrúa almannasamtaka um sama mál og þar er gerð ítarleg greining á íslensku náttúrufari og sérkennum þess. Náttúruverndarsamtök Íslands hafa tekið fram í yfirlýsingu til umhverfis- og samgöngunefndar að þau telji að aðkoma almennings að gerð frumvarps hafi sjaldan eða aldrei verið meiri. Þessu vil ég fá að halda til haga svona í nafni sanngirninnar.

Hv. þingmaður talar líka um meintan skort á skilgreiningum í þessu frumvarpi, gerði meðal annars að umtalsefni að það vantaði skilgreiningu á hugtakinu „óbyggð víðerni“. Ég bendi hv. þingmanni á 46. gr. frumvarpsins þar sem beinlínis er skilgreint hvað við er átt með óbyggðum víðernum. Svo er um fleira sem ég vonandi get komið að í næsta andsvari, m.a. athugasemdir þingmannsins um utanvegaakstur þar sem hann lætur að því liggja að björgunarsveitir og bændur muni ekki geta farið um landið á vélknúnum farartækjum. (Forseti hringir.) Ég held að þar sé margt ofsagt og ég skýri það betur í næsta andsvari.