141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur kom vel inn á það í ræðu sinni áðan að oft og tíðum verður maður að gera sér grein fyrir því að þegar mál koma fram er gagnrýni á báða bóga. Oft er borið við samráðsleysi. Það sem kom mér hins vegar á óvart við málið er hversu margir gagnrýndu samráðsleysið. Það er full ástæða til að taka dæmi sem snýr að einfaldri skilgreiningu á hugtakinu „ræktað land“ sem var í frumvarpinu. Þrátt fyrir þetta víðtæka samráð sem átti að hafa farið fram um meðferð frumvarpsins lá fyrir að skilgreiningin á ræktuðu landi hefði, ef menn hefðu tekið tillit til eða rætt við aðila sem þarna búa, hugsanlega falið það í sér að meiri hluti af túnum bænda teldist óræktað land. Það var gagnrýnt af forsvarsmönnum þeirra og þeir bentu á að koma hefði mátt í veg fyrir þetta ef einhver vilji hefði verið til samráðs. Þarna tek ég bara eitt dæmi.

Ég hef legið mjög yfir undanþágum fyrir bændur, björgunarsveitir og aðra í akstri utan vega, bæði í nefndinni og eins núna í umræðunni. Því miður er ekki hægt að skilja breytingartillögur meiri hlutans eða nefndarálitið öðruvísi en svo, eins og ég skilgreindi í ræðu minni áðan, að það sé með öllu verið að banna utanvegaakstur, m.a. vegna skilgreiningarinnar á ræktuðu landi þar sem kemur fram í breytingartillögunum að ekki megi stunda utanvegaakstur nema á ræktuðu landi. Svo er skilgreiningin á ræktuðu landi fremst í frumvarpinu. Þetta kemur úr tveimur áttum inn í frumvarpið en engu að síður tengist það saman og þá má skilja það svo að það sé með öllu verið að banna utanvegaakstur. Þetta kallar einfaldlega á, með fullri virðingu og án nokkurra sleggjudóma, að frumvarpið verði skoðað betur (Forseti hringir.) og reynt að koma í veg fyrir svona misskilning.