141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[16:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég get tekið undir það sem hv. þingmaður segir, þetta er mikilvægt mál og mjög efnismikið. Frumvarpið sjálft er um 100 greinar ásamt um 20 reglugerðarheimildum til ráðherra ásamt bráðabirgðaákvæðum o.fl.

Ég verð þó aðeins að bregðast við því sem hv. þingmaður segir, að mikið samráð hafi verið haft og samvinna verið við samningu frumvarpsins. Við leggjum þá hvort sitt matið á það en ég staldra dálítið við það sem kom fram í andsvari við hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson áðan þegar ég spurði hann um athugasemdir Landssambands veiðifélaga sem kvartaði undan samráðsleysi. Hv. formaður nefndarinnar sagði að það hefði komið fram hjá mörgum sem komu fyrir nefndina að ekki hefði verið haft nægilegt samráð.

Það segir okkur að það er matsatriði hvað er mikið samráð eða lítið. Framsögumaður málsins, formaður nefndarinnar, vitnaði í umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem gerir athugasemd við að það hafi ekki átt fulltrúa í nefndinni og það segir sitt um þann undirbúning sem var í þessari undirbúningsnefnd. Sveitarfélögin eru með hitt stjórnsýslustigið og hv. þingmaður veit það eins vel og ég, og jafnvel betur, hversu mikilvægt er að hafa þá aðila með í ákvörðunum.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann hvort hún hafni því alfarið að það hefði verið æskilegra að hafa meira samráð og samvinnu við undirbúning frumvarpsins.