141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[16:09]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að það er mikilvægt að gott samráð eigi sér stað við undirbúning heildarlöggjafar í jafnstórum málaflokki og náttúruverndin er. Hversu langt á að ganga í að teygja sig út til allra hugsanlegra umsagnaraðila á fyrri og síðari stigum máls er alltaf álitaefni. Það er samt mikilvægt í máli sem þessu að hafa samráð við sveitarfélög, náttúruverndarsamtök, landeigendur, útivistarsamtök og aðra þá sem af sjálfsögðum og eðlilegum ástæðum telja sig hafa nokkuð um það að segja hvaða umgjörð er sköpuð utan um möguleika fólks til að njóta íslenskrar náttúru. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir það í nefndaráliti sínu að það þurfi að tryggja inn í framtíðina að slíkt samráð sé ævinlega virt og virkt þannig að ég er hjartanlega sammála þingmanninum um það.

Það má heldur ekki gleyma því að þetta mál hefur verið í opnu umsagnarferli á bæði fyrri og síðari stigum. Eftir að mál er til dæmis komið til þingsins er það sett í opið umsagnarferli, öllum gefst kostur á að koma álitum sínum og umsögnum að, hvort sem óskað er sérstaklega eftir því eða ekki. Öll félagasamtök eiga þess kost að óska eftir því að koma til fundar við nefndir í umfjöllun mála þannig að umsagnarferlið og aðkoma þeirra sem telja sig hafa eitthvað um málið að segja er eins opin og virk og hún getur verið.

Ég tek undir það að í aðdraganda á fyrstu stigum mála þegar verið er að leggja drög að því á samráðið auðvitað að vera gott og víðtækt. Ég held nú að það hafi líka verið býsna gott og býsna víðtækt í þessu máli þó að sjálfsagt hefði mátt gera betur.