141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[17:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerði töluvert að umtalsefni vinnubrögð við frumvarpið og þá gagnrýni sem hefur komið fram varðandi skilgreiningar og að betur þyrfti að vinna málið. Mig langar því að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í það og velti fyrir mér þeim skilgreiningum sem hv. þingmaður nefndi varðandi frumvarpið og breytingartillögur. Er ekki varasamt að fara fram með svo veigamikið og mikilvægt frumvarp sem þetta þegar meginskilgreiningar, t.d. varðandi ræktað land, liggja ekki nógu skýrt fyrir, þ.e. að það geti verið deilur um túlkunina?

Einnig velti ég því upp við hv. þingmann hvort þingmaðurinn kannist við það að í ríkisfjármálaáætlun sé gert ráð fyrir þeim auknu útgjöldum sem geta orðið allt að 100 milljónir á ári samkvæmt þessu hér á næstu árum. Man hv. þingmaður eftir því og þá hvort þær aukningar á fjárveitingum sem hér er óskað eftir strax á þessu ári hafi verið í fjárlagafrumvarpinu?

Þá væri ágætt ef hv. þingmaður hefði tíma, kannski í seinna andsvari, til að svara því varðandi þátt sveitarfélaganna sem eðlilega setja fram athugasemdir hvort það sé ekki nægjanlegt til þess að menn sameinist um að setjast betur yfir málið og átta sig á stjórnsýslulegum afleiðingum þess. Eitt sveitarfélagið gerir meðal annars þá athugasemd að með frumvarpinu sé verið að færa óþarflega mikið af ákvarðanatöku og valdi frá sveitarfélögunum á landsbyggðinni til Reykjavíkur.