141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[17:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum svo sem séð það einum of oft, held ég, á þessu kjörtímabili að lagasetning er ekki nógu vönduð. Við höfum líka séð að það virðist litlu skipta hvaða fjárlög eru sett, það er farið fram úr og það eru teknar skóflustungur. Einhver hv. þingmaður kallaði þau skóflustungufjárlög í þessum ræðustól þannig að svo virðist sem heildaryfirsýn yfir fjárlögin til lengri tíma sé af skornum skammti. Þar af leiðandi hlýtur það að vera áhyggjuefni ef það er þannig að við fjárlagagerðina og í áætlunum sem horfa til framtíðar sé ekki gert ráð fyrir jafnfyrirséðum hlutum og þeim sem hér eru. Þetta frumvarp er að sjálfsögðu ekki alveg nýtt á þingi og hefur legið fyrir.

Það er annað sem mig langar að koma aðeins inn á. Í neðstu breytingartillögunni á bls. 3, um akstur utan vega, segir, með leyfi forseta:

„Við eftirleitir er bændum heimilt að sækja sauðfé inn á miðhálendið á léttum vélknúnum ökutækjum með sex hjólum að lágmarki …“

Eru einhvers staðar færðar sönnur á að það sé betra að hafa sex hjól undir þessu apparati en fjögur? Eru þau ekki þyngri, þessi farartæki sem eru með sex hjólum, en þau sem eru með fjórum hjólum? Mér finnst þetta sérstakt.

Lokasetningin er upptalning á þeim sem mega aka utan vega vegna ákveðinna starfa, heftingar landbrots o.s.frv. Mér sýnist það vera með sérstöku leyfi Umhverfisstofnunar. Er það þá þannig að þegar menn þurfa vegna (Forseti hringir.) lögreglustarfa eða sjúkraflutninga að aka utan vega þurfa þeir fyrst að fá til þess leyfi hjá Umhverfisstofnun?