141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[17:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur inn á mál sem ég er búinn að fjalla mjög oft um í mörgum ræðum um mörg önnur frumvörp sem snúa að mörkuðum tekjustofnum. Ég þyrfti eiginlega að fá að tala í hálfan dag og skylda alla til að vera hérna inni því að mér finnst voðalega fáir einhvern veginn vilja taka þátt í þeirri umræðu.

Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni og svara því játandi að það er gríðarlega mikilvægt að menn fari í forgangsröðun í ríkisfjármálunum yfir höfuð með það að markmiði að verja grunnstoðir landsins, löggæsluna, menntamálin, heilsugæsluna og heilbrigðisþjónustuna. Það eru engar pólitískar deilur um það. Það er gríðarlega mikilvægt að við forgangsröðum í ríkisfjármálum.

Hvað gerist ef frumvarpið verður samþykkt? Þá er verið að taka ákvörðun um að samþykkja frumvarp sem engar fjárveitingar eru fyrir í fjárlögum, það er bara ekki króna fyrir þessu í fjárlögum, ekki króna, ekki ein, ekki tíeyringur. Það er ekki gert ráð fyrir því í fjárlögum 2013. Það er ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum til að samþykkja þetta frumvarp þannig að það gefur augaleið.

Það stendur í frumvarpinu sjálfu að ekki sé gert ráð fyrir þeim útgjöldum í ríkisfjármálastefnunni. Þessi ríkisfjármálastefna er orðin eintómt grín, algjörlega hlægileg. Það eru lögð fram frumvörp, hvert á fætur öðru, og svo er ríkisstjórnin með ríkisfjármálastefnuna. Ég las upp úr henni um daginn þar sem stóð: Ríkisstjórnin mun hvergi nokkurs staðar hvika frá þessari stefnu vegna þess að ef hún gerir það förum við ofan í hyldýpið.

Síðan kemur á færibandi hvert frumvarpið á fætur öðru sem ekki er gert ráð fyrir í ríkisfjármálastefnunni. Þannig segir hæstv. ríkisstjórn sjálf að hún sé að fara ofan í hyldýpið, það er ekki flóknara en það, það gefur augaleið, það stendur í stefnunni sjálfri: Ef við höldum ekki þessari stefnu förum við í hyldýpið.

Svo fer hún ekki eftir henni.