141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[17:22]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil með nokkrum orðum blanda mér í þessa umræðu um frumvarp til laga um náttúruvernd sem ég fagna mjög að sé komið fram. Eins og með mörg önnur stór mál á þinginu í vetur sem koma það seint á dagskrá þingsins fær það kannski ekki þá umræðu sem það á skilið, bæði málefnalega og sem tæki á þeim greinum sem hugsanlega einhver ágreiningur væri um eða menn vildu skýra betur. Ég er ekki bara að tala um þetta frumvarp heldur önnur sem frekar hafa tekið mið af því að hafa hér lengri umræðu en að fara ofan í efnið. Það er miður.

Ég er nokkuð róleg með þá afgreiðslu sem við vonandi náum að klára þó að við hefðum viljað hafa betri tíma til að fara málefnalega í umræðu um frumvarpið. Vinnan að frumvarpinu á sér nokkuð langan og ítarlegan aðdraganda. Margir hafa komið að og hin svokallaða hvítbók sem var undanfari þess að frumvarpið var lagt fram var mjög mikil að efni og fór víða í umsagnir. Mjög margir komu að samningu þeirrar hvítbókar þannig að þetta er ekki frumvarp sem sprettur núna frá umhverfisráðuneytinu eða umhverfisráðherra inn á þingið. Eins hefur frumvarpið farið í umsagnir og eins og kemur fram í nefndaráliti hafa mjög margir gefið umhverfis- og samgöngunefnd umsagnir um það og margir látið í sér heyra bæði með og á móti, hvatt til þess að frumvarpið væri samið eða verið með athugasemdir um að það sé hugsanlega verið að hefta frjálsa för um landið.

Nefndin hefur hlustað á þessi rök og tekið tillit til mjög margra eins og kemur fram í breytingartillögu um frumvarp til laga um náttúruvernd frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem er upp á einar sjö síður, bæði efnislegar og svolítið snurfus. Mikilvægar efnislegar breytingar eru kynntar þannig að það hefur virkilega verið hlustað á umsagnaraðila og tekið tillit til margs sem þar hefur komið fram.

Ég sit ekki í umhverfis- og samgöngunefnd þannig að ég hef ekki fylgst með vinnunni í nefndinni og hef ekki lesið allar umsagnirnar eða farið ítarlega yfir þær. Ég hef samt fylgst með málinu og er mjög ánægð með að þetta skuli vera komið fram. Ég vil þó aðeins segja að undirbúningur þessa frumvarps er góður og mætti líta til þess að það væri svipaður undirbúningur á fleiri sviðum.

Ég vil aðeins horfa til dagsins í dag og þeirrar framtíðar sem við munum búa við eftir að þessi lög hafa tekið gildi. Það eru fleiri lög og reglur sem við þurfum að fara eftir, m.a. við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem verða að taka tillit til þessara laga eins og fleiri. Ég tel að við eigum núna að staldra við og viðurkenna að við séum á ákveðnum tímamótum varðandi bæði löggjöf og vinnubrögð. Það að íbúar á Austurlandi séu núna að átta sig á því, af biturri reynslu, að Lagarfljótið sé það gruggugt af aurburði að allt líf sé að fjara þar út er umhugsunarefni. Það segir okkur að þegar unnið var að undirbúningi að þeim miklu framkvæmdum sem Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði voru samkvæmt þágildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda hafi komið í ljós að mjög margar grunnrannsóknir vantaði um það svæði sem framkvæmdin náði til. Það verður áfram. Þrátt fyrir frumvarp til laga um náttúruvernd þurfum við að efla mjög grunnrannsóknir á sviði náttúrulífs og náttúrufars á öllum sviðum þannig að við séum ekki berskjölduð þegar kemur að ákveðnum framkvæmdum á einhverju svæði.

Það sýndi sig við rannsóknirnar við Hálslón og alla þá framkvæmd að það hefði þurft lengri tíma, það hefði þurft að skoða betur þær ábendingar sem komu fram í rannsóknunum sem fóru fram. Það var ekki hægt að svara spurningum af því að tíminn var ekki nægur og það var eingöngu hægt að geta sér til um það eða láta það koma fram í mati á umhverfisáhrifum varðandi vatnið í Lagarfljótinu að vatnið yrði gruggugra þegar Jökla væri komin í það, að þar af leiðandi yrði minni ljóstillífun og að líf í vatninu mundi minnka, vatnsborðið hækka og landbrot verða meira af auknu vatnsmagni.

Af hverju er ég að segja þetta núna? Vegna þess að það sýnir sig að margir eru undrandi í dag, öllum þessum árum eftir að kynningin á rannsóknunum fór fram og þessu ferli öllu. Menn undrast að þeir skyldu ekki hafa vitað þetta fyrr. Það sýnir okkur að sama hvort við erum að tala um náttúruvernd, kynningu á kortagrunni, kynningu á hvar megi tjalda, hvar megi ferðast eða hvernig maður eigi að haga sér til þess að fara eftir lögum um náttúruvernd, þarf alltaf að fara í góða kynningu. Það mun þurfa eftir að þetta frumvarp verður orðið að lögum, það þarf að kynna almenningi vel hvernig við eigum að umgangast landið, hvað má og hvað má ekki.

Tekið hefur verið tillit til nokkurra þeirra athugasemda sem hafa komið fram um möguleika til ferðamennsku, þ.e. að ferðast um landið á vélhjólum eða ökutækjum, það hefur verið horft til þess. Ég vil fá að bæta við frá eigin brjósti varðandi þann lifandi kortagrunn sem við þurfum að eiga, sem sýnir alveg glöggt hvaða slóða má nota, því að þetta eru ekki allt vegir uppi á hálendinu heldur slóðar, að við vinnum að því að þegar búið er að ákveða hvar slóði eigi að liggja verði hann stikaður. Það má stika hann upp á gamla mátann með gömlu stikunum sem eru ekki eins áberandi og nýju stikurnar sem eru þá leiðarvísir fyrir umferðina, heldur sýni þá stikurnar þegar þær eru komnar að þetta er vegur sem má aka. Ég hvet Vegagerðina og sveitarfélögin til að horfa til þess þegar kortagrunnurinn liggur fyrir að stika þá slóða sem má aka. Þá vitum við sem erum að keyra um og viljum halda okkur inni á slóðunum til framtíðar að ef slóðinn er ekki stikaður er hann ekki til aksturs, þá er hann fyrir bændur eða er þarna frá því að menn máttu keyra þessa slóða en í raun á bara veðrunin eftir að má út mjög marga slóða á hálendinu.

Ég hvet líka til þess að náttúrustofurnar fái verulega aukin verkefni og verði efldar, eins og gert er ráð fyrir með þessum breytingum, að hlutverk þeirra verði aukið. Ég tel mjög mikilvægt fyrir þróun byggðar og búsetu að staðið verði við það að auka verkefni þeirra. Það er mikilvægt að fá menntað fólk inn á opinberar stofnanir. Rannsóknir og vísindi styrkja nærumhverfið og draga til sín fleiri stofnanir. Þar fyrir utan eru heimamenn og þeir sem eru og vinna á staðnum oft gleggri á breytingar og náttúrufar en þeir sem eru fjær og vinna á höfuðborgarsvæðinu. Ég er ekki að gera lítið úr þekkingu þeirra og kunnáttu en það er mikilvægt að styrkja staðbundnar rannsóknir og auðvitað þetta samband á milli Náttúrufræðistofnunar og náttúrustofanna.

Ég fagna því líka að varúðarreglan er komin inn. Hún er skýr og náttúran skal njóta vafans. Ef við hefðum haft þessa reglu í náttúruverndarlögunum þegar tekin var ákvörðun um að reisa Kárahnjúkavirkjun tel ég að sú framkvæmd hefði aldrei orðið jafnstór í sniðum og hún varð að lokum. Það var farið yfir þau mörk sem náttúran þoldi.

Varðandi náttúruna hefði ég viljað sjá skýrt bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum. Mér finnst það hluti af náttúruvernd. Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu í þá veru að löndum, svæðum og einstökum aðilum sem og sveitarfélögum sé heimilt að banna útiræktun á erfðabreyttum lífverum á sínu svæði. Þetta er gert í Evrópu og ég vildi óska að við hefðum verið svo gæfusöm að taka skýra afstöðu til þess í þessu frumvarpi. Umræða um bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum hefur ekki verið hávær en ég tel að hún muni koma upp og sérstaklega í tengslum við möguleika okkar á að auka hlut lífrænnar ræktunar. Það er eftirspurn eftir lífrænt vottuðum landbúnaðarvörum og það fer ekki saman að hafa lífræna vottun og ræktun á erfðabreyttum lífverum í nágrenninu þannig að ég hefði viljað sjá þessa skýru afstöðu í frumvarpi til laga um náttúruvernd.

Skógræktarmenn hafa áhyggjur af því að skógrækt sé settur, ekki stóllinn fyrir dyrnar en nokkrar hindranir á öflugri skógrækt að öllu óbreyttu í þessu frumvarpi. Ég vona að sú skipulagða skógrækt, bæði til nytja og yndisauka, með mismunandi trjátegundum fái áfram að dafna. Með breyttu loftslagi höfum við möguleika á því að efla skógrækt enn frekar og þá sérstaklega nytjaskóga sem við þekkjum vel austur á Héraði. En til þess þarf líka stuðning, þ.e. við ungplönturæktun, og það hefur komið nokkurt skarð í þá undirstöðu á undanförnum árum. Það var erfitt eftir hrun að forgangsraða á neinn annan veg en þann að heilbrigðisþjónustu og skólunum og annarri velferðarþjónustu yrði hlíft og annað sem gæti beðið yrði fyrir meiri niðurskurði. Það má segja með skógræktina að skógræktarmenn horfa til framtíðar en eftir sem áður er plöntuframleiðslan alltaf í núinu og þar má ekki draga mikið úr.

Ég er nú komin aðeins út fyrir efnið nema að því leytinu til að skógræktaraðilar hafa nokkrar áhyggjur af því að ekki verði sami kraftur í skógrækt. Að sjálfsögðu þarf að velja bæði svæði og tegundir eins og skógræktin gerir í dag. Það er orðið mjög gott skipulag á allri nýplöntun og ræktun. Það er ekki hægt að líkja því saman við það sem var fyrir fáum áratugum. Í dag eru öll svæði þaulskipulögð, bæði með hvaða land á að taka, hvaða tegundum eigi að planta og hvar þær eru, þannig að það er hægt að ganga að öllum gögnum.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði ekki að hafa þetta neitt lengra. Ég vildi aðeins koma inn á nokkur atriði sem mér eru hugleikin.