141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[18:21]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, hann kom víða við. Það væri þó dálítið forvitnilegt að heyra afstöðu hv. þingmanns til þess anda frumvarpsins sem snýst í mínum huga um átökin á milli þess sem kalla má „harðlínu“ í umhverfisvernd andstætt því sem við viljum tala um sem fullt ferðafrelsi. Það er athyglisvert að hugleiða umræðuna, ekki síst út frá orðum hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur hér fyrr í dag sem sagði að þessi löggjöf væri ekki hugsuð til að stuðla að og byggja undir ferðafrelsi, heldur fyrst og fremst út frá náttúrunni sjálfri og því að vernda hana.

Það er mjög merkilegt ákvæði í 19. gr. þessa frumvarps sem lýtur að umferð gangandi manna. Eftir því sem ég best veit er þar í fyrsta skipti í íslenskri löggjöf sett í frumvarp til laga ákvæði sem bannar eða takmarkar umferð gangandi fólks um landsvæði. Ég vil heyra afstöðu hv. þingmanns til þessarar hugsunar. Hvert erum við komin þegar farið er í íslenskri löggjöf að setja inn órökstutt heimildarákvæði til stjórnvalda sem ekki neinir skilmálar eru fyrir með hvaða hætti verði beitt? Þetta er hugsun í þá veru að (Forseti hringir.) banna eða takmarka för gangandi fólks um Ísland.