141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[18:26]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svarið. Það eru önnur atriði hér inni og raunar mjög víða, m.a. gerð töluverð breyting á 31. gr. frumvarpsins. Sumt er þar til bóta og annað vekur síðan spurningar, eins og til dæmis það sem lýtur að heimildum til þess að aka utan vega á ræktuðu landi til þess að viðhalda skálum og neyðarskýlum. Það verður ekki hægt nema með sérstöku leyfi Umhverfisstofnunar. Hvers vegna þarf það? Síðan getum við horft á 46. gr. sem lýtur að óbyggðum víðernum. Þar er komin heimild til að takmarka ferðafrelsið og það er líka ákvörðun stjórnvalda að setja slík mörk.

Ég velti fyrir mér hvort við hv. þingmaður getum ekki verið sammála um að dálítið langt sé seilst þegar allar ákvarðanir sem að þessum efnum lúta þarf að bera undir stjórnvaldið áður en viðkomandi einstaklingar (Forseti hringir.) hafa frelsi til þess að gera þetta á sínum eigin forsendum.