141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[18:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Hv. þingmaður spyr hvort orðalag það sem þingmaður segir að sé fengið frá Bændasamtökum Íslands hefði átt þá að standa út af, ef ég hef skilið þingmanninn rétt. Ég var bara að benda á að í nefndaráliti 1. minni hluta er því velt upp hvort þessi skilgreining sé nógu skýr. Hér er klárlega verið að velta vöngum yfir því hvort skilgreiningin sé nógu víðtæk og ég sagði einfaldlega í ræðu minni að ef um þessa skilgreiningu frekar en einhverjar aðrar ríki óvissa þurfa menn að fara betur yfir málið. Það kom hvergi fram í máli mínu að þessi skilgreining væri rétt eða röng eða hvort skilgreining einhvers annars væri það.

Það kann að vera að að einhverju leyti sé búið að taka tillit til þeirra athugasemda sem bárust en svo virðist sem það þurfi að fara betur yfir málið. Ef það er hætta á mistúlkun eða einhverju svoleiðis, hvort sem menn tala um ræktað land, steind eða annað, er mjög mikilvægt að menn skýri málið. Það var fyrst og fremst það sem ég sagði um þetta mál, og í rauninni það eina.