141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svörin. Mig langar í seinna andsvari mínu að koma aðeins inn á það sem þingmaðurinn ræddi um utanvegaakstur. Sú breyting sem þingnefndin gerir á ákvæðum um hann er einmitt gerð að fengnum ábendingum frá umhverfisverndarsamtökum og útivistarsamtökum og raunar einnig forsvarsmönnum bænda. Ég tel það mjög mikilvægt og bendi til að mynda á það sem fram kemur um björgunarstörf og annað, að þegar talað er um að menn sæki um leyfi til Umhverfisstofnunar er átt við að menn sæki um leyfi til slíkrar starfsemi. Auðvitað er ekki átt við að menn eigi að sækja um í hvert einasta skipti sem þeir ætla að fara út fyrir svæðið.

Sú mjög góða ábending um að skrá aksturinn er einmitt komin frá útivistarsamtökunum vegna þess að þau vilja meina, (Forseti hringir.) sum hver að minnsta kosti, að oft séu þau vænd um utanvegaakstur þegar þau eiga alls ekki hlut að máli. Þess vegna er (Forseti hringir.) mikilvægt að það séu tæki til að skrá þennan akstur.