141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[18:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum á svipuðum nótum þegar kemur að því hvað er hægt að skrá og hvað ekki. Það er hægt að fylgjast með hvar þeir aka, þeir aðilar sem hafa til þess leyfi og þar til gerðan búnað. Ákvæði þetta mun samt aldrei koma í veg fyrir að einhverjir aðrir sem ætla sér að skemma landið okkar og aka utan vega geri það, og ég veit að hv. þingmaður er ekki að segja það.

Ég þakka þingmanninum fyrir skýringar á þessu sérstaka leyfi Umhverfisstofnunar. Það er mjög mikilvægt. Þegar hv. þingmaður segir þetta er það hin augljósa skýring, að menn fái þá varanlega eða tímabundna undanþágu eða hvernig það er til að sinna þeim störfum sem þeir þurfa að gera.

Það hefði kannski átt að vera skilgreint betur í lögunum (Forseti hringir.) hvernig þessar undanþágur eru orðaðar eða settar fram. Ef ég skil þetta rétt er fyrst og fremst (Forseti hringir.) vísað í reglugerð sem á eftir að setja.