141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni af ummælum hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, í sambandi við akstur björgunarsveitarmanna og skylda þætti, vildi ég aðeins leggja orð í belg og meðal annars rekja það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Heimild björgunarsveita og annarra sem koma nauðstöddum til hjálpar er ótvíræð en meiri hlutinn bendir á að sú heimild takmarkast við sjálf björgunarstörfin. Æfingar björgunarsveita eiga að fara fram á sérstökum æfingasvæðum, eins og algengast mun vera.“

Það er ekki gert ráð fyrir að heimild björgunarsveita til utanvegaaksturs nái til æfinga í tilefni af þessum ummælum og umræðum sem hér hafa átt sér það um það efni.

Þá segir í nefndaráliti meiri hlutans:

„Bætt er við heimild til aksturs vegna viðhalds skála og neyðarskýla, og er þar gert ráð fyrir sérstöku leyfi Umhverfisstofnunar í hvert sinn.“

Þegar kemur að viðhaldi neyðarskýla og skála þarf að sækja um leyfi til Umhverfisstofnunar í hvert sinn.

Að því marki sem snýr að fötluðum er líka ákveðin óvissa. Vissulega er þess getið að Umhverfisstofnun geti veitt undanþáguheimild vegna aksturs fatlaðra utan vega en hins vegar er alveg óljóst um hvers konar leyfisveitingu verður að ræða. Verður um að ræða að tilteknum fötluðum einstaklingi verði veitt almennt leyfi til utanvegaaksturs eða þarf hinn fatlaði einstaklingur að leita leyfis ef hann ætlar að fara í veiðiferð í tiltekna á á tilteknum tíma eða skotveiði á tiltekinn stað á tilteknum tíma? (Forseti hringir.) Eða hvernig er þetta hugsað? Nú veit ég að hv. þingmaður getur ekki svarað þessu (Forseti hringir.) en þetta skiptir máli í þeirri umræðu sem hann kom inn á í ræðu sinni.