141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[18:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af þessum orðum er kannski rétt að lýsa þeirri skoðun að ég held að útfærsla þessara ákvæða, hvort sem er í frumvarpinu sjálfu eða breytingartillögunum, sé ekki hugsuð til enda. Ég hef á tilfinningunni að meiri hlutinn hafi ekki velt fyrir sér hvernig þessi ákvæði munu reynast í raunveruleikanum. Þess vegna eru ekki að ástæðulausu gerðar athugasemdir við að ljúka eigi málinu hugsanlega á nokkrum sólarhringum þegar jafnmikilvæg atriði eru enn í lausu lofti.

Ég ætlaði að nefna annað atriði sem tengist því sem kom fram í ræðu hv. þingmanns og það varðar skráningu aksturs utan vega. Ég tel að þarna gæti verið um íþyngjandi ákvæði að ræða. Það er verið að flækja hlutina dálítið. Eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson benti á í ræðu sinni (Forseti hringir.) er í sjálfu sér leikur einn fyrir menn að sleppa því að skrá (Forseti hringir.) ef þeir eru einhvers staðar á gráu svæði. Spurningin er (Forseti hringir.) hvaða tilgangi þessi skriffinnska (Forseti hringir.) á raunverulega að þjóna.