141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[20:50]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Bara svo það sé alveg skýrt tel ég það til fyrirmyndar þegar nefndir vinna eins og þarna er gert með kostnaðarhluta frumvarpsins. Það er mjög gott mál, en ástæða þess að ég hef fyrirvara, sérstaklega í þessu tilviki, á þessum tölum öllum er tillagan um þennan opinbera korta- og gagnagrunn. Meðan útfærslan á slíku kerfi liggur ekki nákvæmlega fyrir höfum við því miður þá reynslu að kostnaðurinn eykst eftir því sem við göngum lengra inn í verkið og það fer að þróast. Menn vilja alltaf gera þetta betra og betra, og gott eitt um það. Þess vegna hef ég allan fyrirvara á þessum tölum og tel að þær verði til muna hærri en þarna kemur fram.

Ég hjó líka eftir því hjá hv. þingmanni að hann nefndi að opinberar stofnanir mundu hugsanlega tapa tekjum yrði þetta að lögum. Þrátt fyrir það mat að tekjur viðkomandi stofnana dragist saman hef ég ekki séð á móti áform um að draga úr starfsemi viðkomandi stofnana. Í þessu hærra kostnaðarmati má gera ráð fyrir viðbót vegna tekjusamdráttar. Reglan er hins vegar sú, eins og við sjáum í ágætu nefndaráliti frá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni, að vöxturinn í þessum miðlægu, opinberu stofnunum á sviði náttúruverndar og umhverfismála hefur verið jafn og stöðugur öll síðustu ár. Ef ég man rétt hefur árlegur kostnaður Náttúrufræðistofnunar Íslands vaxið um um það bil 250 milljónir frá árinu 2009 til ársloka 2012. Það er umtalsvert mikill vöxtur í ekki stærra batteríi og til muna hærri og meiri en víðast hvar annars staðar í (Forseti hringir.) ríkisútgjöldum.