141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[20:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni ræðuna og þann áhuga sem hann sýnir málinu með því að taka þátt í umræðunni. Við hv. þingmaður höfum einmitt á vinnslustigi þessa máls, bæði í sameiningu og væntanlega líka einir og sér, átt kost á því að eiga mjög gagnleg samtöl við útivistarfólk, náttúruverndarfólk og fullt af fólki náttúrlega um málið. Ég held að það samtal sé afar gagnlegt.

Hv. þingmaður kemur inn á það sem ég held að sé mjög mikilvægt, að almannarétturinn er mjög mikils virði. Nú er almannarétturinn rýmkaður umtalsvert frá núgildandi lögum, þ.e. 14. gr. núgildandi gilda miðað við 19. gr. í frumvarpinu. Það er töluverð rýmkun á almannaréttinum. Er hv. þingmaður að segja að hann vilji þetta ekki? (Gripið fram í: Jú, …) Er hv. þingmaður að segja það ef hann vill fresta því að klára þetta verk?

Hv. þingmaður talaði um rétt fatlaðra einstaklinga. Í núgildandi náttúruverndarlögum er ekkert um aukinn rétt fatlaðra, nákvæmlega ekki neitt, til að njóta landsins. Því er hér stigið skref til að reyna að mæta þessum hópi einstaklinga, og er þingmaðurinn þá ekki ánægður með það?

Í þriðja lagi er það sem hv. þingmaður nefndi um heimild til utanvegaaksturs til að koma við viðhaldi á skálum ekki heldur í núgildandi lögum og ef við klárum ekki þetta verkefni núna frestast væntanlega um ótiltekinn tíma að klára að gera þessum ferðafélögum og útivistarhópum kleift að sinna skálum sínum með boðlegum hætti. Er þingmaðurinn þá að mælast til þess að við frestum því enn um sinn?