141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[20:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svörin. Varðandi þau atriði sem hv. þingmaður nefnir að mætti koma betur inn á og skrifa ítarlegar um réttindi fatlaðs fólks til þess að njóta náttúrunnar — sem í rauninni þarf ekki með sérstökum hætti, auðvitað hafa þessir einstaklingar réttindi eins og aðrir — finnst mér algjörlega koma til greina að skrifa það ítarlegar inn í lagatextann. Það er eitt af því sem má athuga milli 2. og 3. umr.

Ég mótmæli hins vegar því sem hv. þingmaður segir um 19. gr. Ef hv. þingmaður ber saman 19. gr. frumvarpsins sem er sambærileg við 14. gr. núgildandi laga er rýmkunin umtalsverð. Það er farið nær lögunum frá 1956 í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir en er í gildandi lögum. Það hlýtur að vera til bóta því að við hv. þingmaður erum sammála um að almannarétturinn sé mjög mikilvægur og einn af grundvallarréttindum Íslendinga, raunar nú orðið allra EES-borgara, til að ganga og ferðast um landið. (KÞJ: Þurftirðu nú að eyðileggja ræðuna með þessu?)

Mig langar síðan að benda hv. þingmanni á að 91. gr. sem hann ræddi sérstaklega, þ.e. um refsiheimildir, hefur verið umskrifuð algjörlega í breytingartillögum nefndarinnar, einmitt vegna ábendinga frá embætti ríkissaksóknara. Sú umskrift var gerð í góðu samráði við það embætti. Þau atriði sem hv. þingmaður nefndi um að það væri verið að mismuna einstaklingum varðandi það hvort hægt væri að gera bifreiðar upptækar og þess háttar sýndist okkur í starfi nefndarinnar að ekki væri hægt að koma þessu fyrir öðruvísi og það er gert með samráði við ríkissaksóknaraembættið.

Að lokum er ég ánægður að heyra að hv. þingmaður fagni þeirri ábyrgð sem nefndin sýnir í því að heimta það að kostnaðarmatið sé endurnýjað sem fram kemur í frumvarpinu vegna þess að það eiga (Forseti hringir.) þingnefndir að gera, þær eiga að skoða þetta sjálfstætt.