141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[21:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil taka undir það sem hann sagði um að til standi að keyra þetta mikilvæga mál í gegn í skjóli nætur eftir allt of litla umfjöllun um það en málið er um 100 greinar.

Stór hópur útivistarfólks, t.d. þeir sem nefna sig 4x4 og fleiri, sem ferðast mikið um í náttúrunni og þekkir hana mjög vel er kunnur fyrir að ganga einstaklega vel um náttúruna, rækta hana og fylgjast vel með. Þegar ég skoðaði póstinn mitt eftir hádegið höfðu um 16 þús. manns skorað á okkur á Alþingi að samþykkja ekki lögin eins og þau liggja fyrir.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að stjórnarmeirihlutinn ætlar að keyra málið áfram með ofbeldi, eins og svo mörg önnur mál. Ef maður á að geta sér þess til fengi frumvarpið kannski um 35 atkvæði ef allir væru í þingsal. Ég vil því leita eftir viðbrögðum hv. þingmanns og skoðunar á því hvort það geti verið að þingmenn stjórnarflokkanna séu svo úr sambandi við fólkið í landinu að þeir telji að 35 hafi meira að segja en þær 16 þús. áskoranir sem liggja fyrir frá fólki sem ferðast um í náttúrunni, þekkir vel til og er umtalað fyrir að hafa gengið vel um náttúruna í gegnum tíðina. Það fólk gerir ekkert annað og hefur engan áhuga á því að skemma náttúruna, eina markmið þess er að hlúa sem best að henni. Fólkið vill ekki láta hefta ferðafrelsi og auðvitað er sjálfsagt að leyfa fólki að ferðast um landið á eðlilegan hátt.

Ég leita viðbragða hv. þingmanns við ofríki meiri hlutans á Alþingi gagnvart öllum þeim ábendingum sem hafa borist til okkar hv. þingmanna.