141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[21:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég svari strax þeirri spurningu hv. þingmanns hvort mér finnist það ekki gáfuleg vinnubrögð get ég upplýst hann um að í fyrstu ræðu minni um málið lagði ég mikla áherslu á menn tækju allar breytingartillögur, sem eru á sjö blaðsíðum og skipta tugum, settu þær inn í frumvarpið, smíðuðu nýtt frumvarp, sendu það til umsagnar og afgreiddu það síðan í haust. Það er auðvitað eina vitið, eins og sagt er, það eru einu faglegu vinnubrögðin.

Hv. þingmaður kom töluvert inn á Samband íslenskra sveitarfélaga og ítarlega umsögn þeirra sem liggur fyrir. Þar kemur mjög skýrt fram, með leyfi forseta:

„Sambandið leggur áherslu á að hér er ekki um að ræða þingmál sem getur sætt flýtiafgreiðslu á þeim stutta tíma sem er til þingloka enda felur frumvarpið í sér róttækar breytingar á gildandi löggjöf um náttúruvernd og í því eru mörg mikilvæg álitaefni sem þarfnast umræðu og kynningar.“

Samband íslenskra sveitarfélaga eru samtök sveitarfélaga á öllu landinu með öllum sveitarstjórnarmönnum sama hvar þeir eru í pólitík, það skiptir akkúrat engu máli. Sveitarfélögin eru líka hitt stjórnsýslustigið sem kemur töluvert að framkvæmd laganna. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, og það kemur reyndar líka fram í umsögninni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, að Bændasamtökunum hefði ekki verið heimilt að sitja í nefndinni sem kom að undirbúningi frumvarpsins og gerir Samband íslenskra sveitarfélaga sömu athugasemd við málið, þ.e. Samband íslenskra sveitarfélaga fékk ekki að skipa fulltrúa í nefndina sem kom að undirbúningi frumvarpsins.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að það sé algjör falleinkunn að Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafi ekki verið hleypt að undirbúningnum í nefndinni sem undirbjó frumvarpið áður en það var lagt fram.