141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[21:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ljótt, eins og hv. þingmaður spyr að, ef maður þarf að hafa lögfræðing sem leiðsögumann í framtíðinni um hálendi Íslands, ef skógur regluverksins verður líkt og margt bendir til. Mér finnst umræðan kannski einkennast af því að menn skorti heildaryfirsýn yfir þennan málaflokk. Menn þurfa að fara miklu betur og ígrundað yfir þetta.

Vaðið er áfram með alls konar breytingartillögur sem fjölmargir aðilar, sem höfðu áður gert mjög alvarlegar athugasemdir við frumvarpið, hafa ekki haft kost á að kynna sér og bregðast við. Það er náttúrlega verklag sem sæmir ekki nokkrum meiri hluta á nokkru löggjafarþingi sem þekkist, alla vega í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Af því að hv. þingmaður nefndi stofnanavæðinguna var það frægt kosningaloforð Samfylkingarinnar í aðdraganda síðustu kosninga, aðalbyggðamálið sem þeir lofuðu, störf án staðsetningar. (Utanrrh.: Ég fann það upp.) Hann fann það upp, segir hæstv. utanríkisráðherra og brosir. Munið þið hvert fyrsta verk Samfylkingarinnar var? Að auglýsa stöðu framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs. (Utanrrh.: Nei, nei.) Jú, og það var þannig að flestir gerðu ráð fyrir því að hann yrði annaðhvort staðsettur á norðausturhorni landsins, á Austurlandi eða á suðausturhorni landsins. Nei, vegna þessa útvíkkaða hugtaks Samfylkingarinnar (Utanrrh.: Ertu á móti störfum án staðfestingar?) þegar kemur að starfsmannamálum ríkisins var hann staðsettur í Reykjavík.

Mig langar að spyrja hv. þm. Kristján Þór Júlíusson um það ákvæði í lögunum, af því að Samfylkingin ætlar að halda áfram á þeirri leið, að skylda eigi starfsmenn þjóðgarða til að vera starfsmenn Umhverfisstofnunar, — nú á alveg að bíta höfuðið af skömminni og setja allt kirfilega á höfuðborgarsvæðið — hvað honum finnist um það. Til hvers vorum við að setja sérstaka sjálfstæða þjóðgarða á stofn? Hvað þykir hv. þingmanni um þetta? (Utanrrh.: Við getum haft það í Fjallabyggð.)