141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[21:56]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Nú er andsvarið farið að snúast upp í spurningu frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni og ég skal glaður svara þeirri spurningu sem hann varpar yfir til mín af því tilefni. Mér þykir sú þróun döpur sem hv. þingmaður lýsir en ef til vill er þetta liður í því sem birtist í frumvarpinu. Það er orðið að töluverðri flækju að ferðast um hálendið og væntanlega kemur í aðdraganda næstu kosninga fram ný túlkun frá Samfylkingunni og uppfinningamanni hugtaksins eða slagorðsins „störf án staðsetningar“, það verða störf án staðsetningar í reglugerðarfrumskóginum. Það verður þá góður atvinnuvegur fyrir lögfróða menn þegar fer að draga úr störfum þeirra fyrir slitastjórnir föllnu bankanna, allt hefur sína kosti og galla.

Ég vil hins vegar ekki skilja við umræðuna án þess að inna hv. þingmann eftir afstöðu hans til þess ákvæðis sem er lagt fram til breytinga í 31. gr. frumvarpsins sem lýtur að umferð Íslendinga um eigið land. Einn hópur fólks þarf samkvæmt frumvarpinu að sæta því að hafa ekki ferðafrelsi nema með heimild Umhverfisstofnunar Íslands. Það eru þeir einstaklingar sem eru fatlaðir og þurfa í rauninni áður en þeir taka til ferða sinna að sækja um leyfi hjá Umhverfisstofnun til að þeim sé heimilt að fara um landið.

Sjálfum þykir mér það heldur dapurt og hefði viljað sjá regluverkið búið þannig úr garði að fatlað fólk gæti hreinlega metið sjálft hvort, hvenær og hvernig það vildi ferðast um Ísland. (Forseti hringir.) Ég vildi gjarnan heyra afstöðu hv. þingmanns til þess þáttar málsins.