141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[21:58]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mannréttindi á Íslandi í dag eiga að vera þannig að við flokkum ekki fólk eftir líkamlegri getu þess og öðru slíku. Ég hefði haldið að það væri árið 1970 og kannski einhvers staðar í Austur-Evrópu ef menn eru í alvöru að tala um að einn þjóðfélagshópur, þ.e. fólk með fötlun, þurfi að lúta því að sækja sérstaklega um leyfi til opinberrar stofnunar til að fá að ferðast um landið sitt. Það þarf þá eitthvert utanumhald utan um slíka þjónustu hjá viðkomandi stofnun. Ætli það þurfi ekki að rannsaka hagi viðkomandi?

Ég átta mig ekki á þeirri hugmyndafræði sem um ræðir og þarf svo sannarlega að fara betur yfir hana, þ.e. ef meiri hlutanum verður ekki að þeirri ósk sinni að keyra málið í gegn í nótt og það verði ekki orðið að lögum á morgun. Ég hefði viljað að forustumenn fatlaðra hér á landi fjölluðu eitthvað meira um þetta vegna þess að mér finnst við í raun og veru vera að hverfa aftur til fortíðar með því að skilgreina fólk með fötlun sem einhvern sérstakan þjóðfélagshóp, akkúrat þegar við höfum verið að vinda okkur í hina áttina með því að veita fólki jöfn tækifæri og jöfn mannréttindi hér á landi óháð fötlun.

Ég verð því að játa, hv. þingmaður, að ég hef ekki kynnt mér þetta ákvæði eða breytingartillöguna til hlítar en hún hlýtur að segja okkur að enn meiri ástæða sé til að fara betur yfir málið vegna þess að verið er að afgreiða það í þvílíkum flýti og hraða því í gegnum þingið og engum er sómi að því.