141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[22:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það sést auðvitað í nefndarálitinu og öllum þeim breytingartillögum sú mikla vinna sem hefur farið fram í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og hana ber að þakka. Ég er þeirrar skoðunar að miklu betra væri að setja allar þessar breytingartillögur í frumvarpið eins og það liggur fyrir núna og leggja það svo fram aftur í haust og hafa aukið samráð um þessa hluti. Það held ég að væri skynsamlegri leið og nálgun en að gera þetta svona í ákveðnu krampakasti í lok þingsins.

Það er dálítið vont að sitja kannski uppi með það að ekki sé nógu vel skilgreint hvernig utanvegaakstur er túlkaður, og ég vísa þá til þessara tveggja tilfella sem ég var að tala um, akstur í fjöru þar sem flóð fellur yfir, það gætir sjávarfalla, og síðan akstur um og niður með árvegi. Það getur kannski hafa verið líka í gömlu lögunum. Ég hitti góðan mann sem var búinn að strita hálft sitt líf við að byggja upp fyrirtæki, sem fluttist og gerðist skógarbóndi vestur á Snæfellsnesi. Hann sagði mér í þessari viku þegar ég hitti hann að hann hefði lent í því að vera að fara í kringum vað og var kærður. Þetta er einstaklega mikill náttúruunnandi og hefur gert stórkostlega hluti vestur á Snæfellsnesi í uppbyggingu. Það var búið að hlaða fyrir vaðið og hann hefði keyrt nokkra metra, einhverja tugi metra alveg í vatnsyfirborðinu sem féll yfir. En hann var kærður og hann endaði á því að fara með málið fyrir dóm, hann var svo ósáttur. Þannig að þetta er kannski svona í gömlu lögunum og maður þarf að átta sig á hvort það hefur orðið breyting á því í frumvarpinu, nýju lögunum. Við erum auðvitað öll sammála um að þetta flokkist ekki sem utanvegaakstur og við erum sammála um það, ég og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson.