141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[22:34]
Horfa

Sigfús Karlsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni. Mér finnst þetta mjög skynsamleg leið til að vinna verkið betur. Ég er ekki að segja í sjálfu sér að verkið hafi verið illa unnið en það var unnið í flýti. Og eins og sagt var fyrr í dag í þessari umræðu vorum við hv. þingmenn að afgreiða nú í vikunni, laga og leiðrétta lög sem voru keyrð hér í gegn í skjóli nætur fyrir jól. Það sama er að gerast með þetta frumvarp. Þetta er allt of skammur tími.

Mig langar í seinna andsvari mínu að spyrja hv. þingmann út í 57. gr. í frumvarpinu og athuga hvort hann er sammála mér. Ég sé að það eru tvö nefndarálit, þ.e. frá 1. minni hluta og 2. minni hluta. Í 2. minni hluta eru hv. þm. Birgir Ármannsson og Árni Johnsen en í 1. minni hluta er hv. þm. Ásmundur Einar Daðason.

Ekki er getið um það sem ég ætla að vitna í í nefndaráliti 2. minni hluta. Í 1. minni hluta er getið um 57. gr., þar segir, með leyfi forseta:

„Þessi grein frumvarpsins byggist á 37. gr. gildandi náttúruverndarlaga en greininni er mikið breytt. Í greininni eru talin upp ákveðin vistkerfi og jarðminjar sem njóta sérstakrar verndar. Þessi svæði eru:

a. votlendi, svo sem hallamýrar, flóar, flæðimýrar, rústamýrar […]

b. birkiskógar sem einkennast af náttúrulegri nýliðun og aldursdreifingu […]

Eftirtaldar jarðminjar njóta sérstakrar verndar […]

a. eldvörp, eldhraun, gervigígar […]

b. fossar og umhverfi þeirra, hverir og aðrar heitar uppsprettur […]

Óheimilt verður með öllu að raska þessum svæðum nema brýna nauðsyn beri til og aðrir kostir séu ekki fyrir hendi.“ (Forseti hringir.)

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála þeirri athugasemd hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, þar sem hann setur það fram að (Forseti hringir.) Vegagerðin hafi bent á að þessi breyting geti unnið mjög gegn viðhaldi og nýlagningu vega.