141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess fyrst ég lendi í því að tala á eftir hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni nefna að það er ekkert nýtt í því að talsmenn Samtaka iðnaðarins vilji ganga í Evrópusambandið, það eru engar nýjar fréttir. (BjörgvS: Glapræði að hætta viðræðunum.)

Síðan langar mig að benda á grein sem var í Fréttablaðinu í gær. Það er viðtal við Hjört Gíslason, stjórnarformann Ögurvíkur, þar sem hann fer yfir hvernig veiðigjaldið sem var sett á útgerðina er að leika það fyrirtæki og hvernig það kemur við mörg fyrirtæki. Það er líka vitnað í framkvæmdastjóra fyrirtækisins Valafells í Ólafsvík sem fór ágætlega yfir stöðuna á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins. Það er alveg einsýnt, frú forseti, að haldi þetta áfram, verði þessum vitleysisgangi með veiðigjaldið, sem stjórnarflokkarnir samþykktu að setja á greinina, ekki breytt munu mörg fyrirtæki í útgerð, aðallega lítil og meðalstór, hætta rekstri. Nú er það þannig að þau eru mörg hver þegar farin að kanna hvort stærri fyrirtækin sem standa betur geti keypt þau.

Einnig hefur komið fram, sem hlýtur líka að vera umhugsunarefni, að þeir útgerðarflokkar og þær útgerðir sem hafa sem mest upp úr veiðum í dag, uppsjávarskipin, borga hlutfallslega lægra veiðigjald en þeir sem eru í annars konar útgerð. Þetta getur ekki heldur talist réttlátt og miðað við hugsanaganginn í frumvarpinu ætti hæsta veiðigjaldið að vera greitt þar sem framleiðni er mest. En þetta segir okkur bara eitt, veiðigjaldabix ríkisstjórnarinnar þarf að taka algerlega upp frá grunni. Þetta getur ekki gengið eins og það er og mun á endanum verða til þess að örfáar útgerðir verða eftir á Íslandi.