141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan hefur verið ansi dugleg þetta kjörtímabil við að mála svörtum litum allt það sem gerst hefur í endurreisn efnahagslífs landsins. Hún segir að ekkert hafi verið gert í tíð þessarar ríkisstjórnar, að allt hafi verið ómögulegt, engin atvinnuuppbygging og allt á vonarvöl þótt allir hagvísar gefi allt aðra vísbendingu. Hagvöxtur er að aukast, fjárfestingar eru að aukast í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og fleiri greinum og þróttur og bjartsýni ríkir í samfélaginu. Maður má vera blindur og heyrnarlaus ef maður verður ekki var við það. Samt halda sjálfstæðismenn og framsóknarmenn áfram að tala á þessum nótum.

Nýjasta dæmið um bjartsýni og dugnað er vestur á fjörðum þar sem norska fiskeldis- og matvinnslufyrirtækið Salmus ætlar að flytja alla starfsemi sína til Bíldudals. Það mun skapa um 130 störf í framtíðinni með laxaslátrun, laxeldi og fiskræktarverksmiðju. Mikil uppbygging er líka í ferðaþjónustu og byggja á hótel á Patreksfirði. Við það mun svæðið styrkjast sem og allir Vestfirðir í framtíðinni. Stjórnvöld eiga að halda áfram á þeirri braut að efla innviði samfélagsins varðandi afhendingaröryggi rafmagns, háhraðatengingu, alla uppbyggingu í samfélaginu og samgöngur því að þessi uppgangur á Vestfjörðum er til fyrirmyndar. Við þurfum að styðja við þá uppbyggingu.

Þetta er bara eitt dæmi um það sem er að gerast og menn láta eins og þeir sjái það ekki. Að mati sumra er ekkert að gerast hér á landi, allt er steindautt. En sem betur fer er mikil uppbygging vítt og breitt um landið á ótrúlegustu stöðum sem áður hafa barist við að halda uppi atvinnu og mannlífi.

Ég segi: Leyfum okkur að vera bjartsýn og horfum björtum augum fram á vorið því að það er (Forseti hringir.) margt gott að gerast og það hefur margt gott gerst og þessi stjórnvöld eiga sinn þátt í því.