141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af orðum síðasta ræðumanns get ég tekið undir það með honum að vandinn í ríkisfjármálum er þess eðlis að hann verður ekki leystur með einu pennastriki eða einhverjum töfralausnum, ég tek eindregið undir það. Ég held að það sé eins gott fyrir okkur þingmenn að átta okkur á því að verkefnin fram undan, á næsta kjörtímabili eru ekki endilega auðveld, ekki endilega þægileg og eru ekki endilega skemmtileg. Það eru gríðarlega mikilvæg verkefni sem bíða okkar.

Þá veltum við fyrir okkur: Hvernig getum við stuðlað að því að meiri verðmætasköpun verði í samfélaginu? Getum við hugsanlega gert það með skattalækkunum? Getum við hugsanlega lækkað skatta til að örva hagkerfið til að koma hlutunum á hreyfingu? Það er því miður ekki alveg rétt sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir benti á áðan, að allir hagvísar væru jákvæðir og upp á við. Því miður er það nú svo að ef leitað er í gögn t.d. Hagstofunnar en ekki gögn hæstv. atvinnuvegaráðherra kemur í ljós að staðan er því miður miklu verri en menn héldu, miklu verri en allar hagspár gerðu ráð fyrir á síðasta ári, miklu verri en áætlanir þessarar ríkisstjórnar byggðu á, því miður. (LRM: Samt upp á við.) Ja, það má segja að mælirinn hreyfist aðeins upp á við eftir allt það hrun sem við höfum séð, en allir eru sammála um að sá hagvöxtur sem við sjáum hér stendur ekki með nokkru móti undir auknum útgjöldum ríkisins, auknum kaupmætti í landinu eða neinu slíku. Það er ekki nein fjárfesting hér að neinu marki og það skilar sér ekki inn í atvinnulífið sem það þyrfti að gera til að við næðum að stækka kökuna þannig að við hefðum meira til ráðstöfunar hjá hinu opinbera, meira til ráðstöfunar hjá heimilunum og meira til ráðstöfunar hjá atvinnulífinu. Það þarf einfaldlega að setja hlutina (Forseti hringir.) í það samhengi að til að gera það sem við viljum gera á næsta kjörtímabili þurfum við að koma hjólum atvinnulífsins á stað svo um munar.