141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, Samfylkingunni, minntist á afar góða ræðu Svönu Helenu Björnsdóttur, formanns Samtaka iðnaðarins, á iðnþingi í gær. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að það er mikilvægt að Íslendingar fái tækifæri til þess að taka afstöðu til aðildarsamnings við ESB og segja skoðun sína í þeim efnum. Hins vegar verður að draga það fram að það eru ákveðnar þversagnir í málflutningi Samfylkingarinnar hvað þetta varðar. Þversagnirnar varða einmitt stærstu málaflokkana, sem eru sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Hvað hefur gerst í sjávarútvegsmálum? Þar hefur Samfylkingin ekki stuðlað að því að sjávarútvegurinn geti borið sig á grundvelli markaðslausna heldur hefur hún reynt að stýra sjávarútveginum inn í félagslegt kerfi sem þýðir að sveiflujöfnunin sem sjávarútvegurinn hefur sjálfur séð um varðandi gjaldmiðilinn sem við erum með, krónuna — þá væri sjávarútvegurinn í afar erfiðri stöðu innan Evrópusambandsins, þannig að Samfylkingin ætti fyrst að taka til heima hjá sér hvað þetta atriði varðar.

Síðan eru það eru landbúnaðarmálin. Já, ég er alveg sammála því, ég hefði viljað sjá minn flokk, Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna, þegar við vorum saman í ríkisstjórn á sínum tíma, taka stærri skref varðandi það að opna á innflutning á landbúnaðarafurðum. Reyndar voru tekin mikilvæg skref eins og t.d. í tengslum við grænmetið. Það hefur sýnt sig að framleiðsla á innlendu grænmeti hefur stóraukist eftir að við breyttum kerfinu. En hvað hefur Samfylkingin gert í ríkisstjórn? Hún hefur einmitt unnið þvert gegn því. Hún hefur verið í ríkisstjórn sem hefur niðurnjörvað landbúnaðarkerfið, hún hefur stutt þá ráðherra Vinstri grænna sem reynt hafa að loka kerfinu, reynt að setja á skömmtunarpólitík og haftapólitík. Þess vegna segi ég að það er miklu betra fyrir þingmenn Samfylkingarinnar að byrja á að taka til heima hjá sér í þessum málum í staðinn fyrir að vera að agnúast hér í þingsal út í aðra flokka og skoðanir þeirra í þessum málum. Þingmenn Samfylkingarinnar ættu að taka til heima hjá sér áður en þeir fara að gagnrýna aðra.