141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Magnúsar Orra Schrams vil ég benda á að hv. þingmaður hefur fylgt ríkisstjórninni að málum, sömu ríkisstjórn og sent hefur til þingsins fjöldann allan af frumvörpum sem langflest eiga það sammerkt að stuðla að mikilli aukningu útgjalda ríkissjóðs á næstu árum og jafnvel áratugum, langt út fyrir þau mörk sem sett eru fram í ríkisfjármálastefnu, svo dæmi séu tekin. Það er því holur hljómur í þeirri gagnrýni sem fram kom hjá hv. þingmanni. En það er rétt að Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að því að létta byrðar heimilanna. Þegar menn ræða um ríkisfjármálin og um þær skattahækkanir sem á þjóðinni hafa dunið er rétt að spyrja sig einnar spurningar: Hversu miklar álögur þola heimilin í landinu? Það er lykilspurningin og við eigum að spyrja þeirrar spurningar fyrst.

Skuldsetning íslenskra heimila er slík að skattahækkanir þær sem dunið hafa á heimilum landsins gera fólkinu í landinu erfiðara að standa í skilum varðandi lánagreiðslur sínar og að hafa í sig og á. (Gripið fram í.) Á sama tíma streyma inn þingfrumvörp ríkisstjórnarinnar um aukin útgjöld.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði að menn þyrftu að vera blindir til að sjá ekki árangur ríkisstjórnarinnar. Það má vel vera. En menn mega vera gersamlega, algerlega staurblindir ef þeir sjá ekki hvaða afleiðingar það hefur ef fjárfesting atvinnuveganna verður sú sem nú er spáð. Það þýðir það, sama hvað hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir segir, að ef fjárfestingin verður sú sem nú er spáð mun hagvöxtur ekki taka við sér og við munum sjá endurtekningu á þeirri atburðarás (Forseti hringir.) sem var þegar því var spáð að hagvöxturinn yrði 3,1% á árinu 2012. Hann varð 1,6% og sennilega eru rök fyrir því að hann hafi verið jafnvel lægri. (LRM: Það er ekki góður … hagvöxtur eins og …)