141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

störf þingsins.

[11:05]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það er oft erfitt að ræða í fullri alvöru um efnahagsmál við Sjálfstæðisflokkinn og fulltrúa hans í þinginu. Hér fyrr í dag kallaði þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Illugi Gunnarsson, eftir hagvextinum, það vantaði svo miklu meiri hagvöxt til að knýja landið áfram. Var skortur á hagvexti í aðdraganda hrunsins, var virkilega skortur á hagvexti þá sem mældist hér 4%, 5% og 6%, vel umfram það sem gerðist í öllum öðrum löndum í Evrópu? Hvers vegna hélt þá ekki góðærið áfram? (Gripið fram í.) Hvernig kallaði það fram hrun? Af því að það var innantómur hagvöxtur, það var ekkert undir honum, engar stoðir þegar á hann reyndi og reynt var að stíga til jarðar undan því áfalli sem skall á okkur, m.a. vegna þess að hagvöxturinn var á röngum rökum reistur. Hann var byggður á falsi, þar undir var engin verðmætasköpun, það voru falskir og ónýtir peningar og hugmyndafræðin sömuleiðis sem hagvöxturinn reis upp frá.

Það eru fjögur ár þessa dagana síðan komst upp um eina mestu pólitísku spillingu á Íslandi þegar styrkjamálið svokallaða hjá Sjálfstæðisflokknum opinberaðist og komst upp um þá í kjölfar skýrslu ríkisendurskoðanda þar um, upp á 55 millj. kr. sem bornar voru inn í fjárhirslur Valhallar árið 2007. Það vildi þannig til að enginn kannaðist við að hafa tekið við þessu. Það kannaðist enginn við að hafa beðið um þetta. Það var eins og það hefði verið skrúfað frá krana og allt í einu duttu 55 milljónir inn á gólfið. Þetta varð til þess að framkvæmdastjóri flokksins sagði sig frá starfinu. Þetta hefur margoft verið rætt í þingsal, flokkurinn ákvað að endurgreiða þetta vaxtalaust og án verðbóta til sjö ára — en er hann að því? Hvar hefur það komið fram að Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) sé að endurgreiða þessa peninga? Er ekki rétt að kalla eftir því núna fyrir kosningar þannig að við vitum að minnsta kosti hver útgerðin er (Forseti hringir.) sem borgar kostnaðinn af því að koma þingmönnum flokksins á þing við næstu kosningar? (Gripið fram í.)