141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í umræðum um störf þingsins áðan kom fram frá fulltrúa Framsóknarflokksins að tillögur Framsóknarflokksins séu ekki afturvirkar, snúa ekki að lánum sem þegar hafa verið tekin þegar kemur að því að afnema verðtrygginguna. Hv. þingmaður ætti þá kannski líka að lýsa því hér í þessum ræðustóli hvernig hún sér fyrir sér að menn gerðu það afturvirkt. Það er það sem hún kallar (Gripið fram í.) eftir að ég svari. Mér fannst hv. þingmaður vera að ýja að því að þessi leið væri ekki rétta leiðin til þess að nálgast þennan hóp, eða vaxtabótaleiðin yfirleitt, og mér finnst að Framsóknarflokkurinn þurfi að svara því hvort þeir styðji ekki áframhaldandi niðurgreiðslur á vöxtum til heimilanna í landinu. Vegna þess að hér var gert lítið úr þeirri aðgerð og sagt að þetta væri greiðsla til fjármálafyrirtækja og sérstakur stuðningur við fjármálafyrirtæki. Hv. þingmaður ætti kannski að svara því hvort það sé ekki alveg öruggt að vaxtabótakerfið haldi áfram ef þau ná árangri í næstu kosningum eða hafa eitthvað um það að segja. (Gripið fram í.)

(Forseti (SIJ): Forseti biður um hljóð í salnum.)